Mynd: AST Norðurland vestra
Mynd: AST Norðurland vestra
Fréttir | 03. apríl 2020 - kl. 15:49
29 í einangrun á Norðurlandi vestra

Samkvæmt nýjum tölum frá aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra eru 29 einstaklingar í einangrun í landshlutanum vegna Covid-19, flestir í Húnaþingi vestra eða 26 og þrír í Skagafirði. Tveir einstaklingar hafa náð bata. Alls hafa 468 verið í sóttkví á svæðinu frá upphafi en í dag er 91 í sóttkví.

Í tilkynningu frá aðgerðastjórn kemur fram að hún hafi verið í sambandi við fyrirtæki og stofnanir á svæðinu undanfarna daga í þeim tilgangi að brýna fyrir aðilum um gerð áætlana um órofinn rekstur starfseininga. Í því felst að fyrirtæki og stofnanir geri áætlun um hvernig bregðast eigi við ef upp kemur smit þannig að hægt verði að halda úti lágmarks starfsemi og þjónustu við íbúa svæðisins.

„Þetta verkefni er vel á veg komið og hefur aðgerðastjórn safnað áætlununum saman. Aðgerðastjórn vill beina tilmælum til þeirra fyrirtækja og stofnana sem ekki hafa komið sér upp slíkri áætlun að gera það hið fyrsta og senda á aðgerðarstjórn í netfangið astnvland@gmail.com,“ segir í tilkynningunni.

Í henni kemur líka fram að aðgerðastjórnin hafi verið starfandi frá 9. mars síðastliðnum og að í henni sitji fulltrúar lögreglustjóra, Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, almannavarnanefnda, Rauða krossins og björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Vettvangsstjórnir séu starfandi á Hvammstanga, Blönduósi og á Sauðárkróki sem sjái um verkefni í umboði aðgerðastjórnar á sínu svæði.

Þá segir í tilkynningunni: „Í vettvangsstjórn á Hvammstanga situr sóttumdæmislæknir Vesturlands á Hvammstanga en Vestur Húnavatnssýsla fellur undir sóttvarnaumdæmi Vesturlands á meðan austur Húnavatnssýsla og Skagafjörður falla undir sóttvarnaumdæmi Norðurlands. Verkefnið hefur almennt gengið vel og er aðgerðastjórn í góðum samskiptum við sóttvarnalækni og samhæfingarstöð almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga