Frá Skagaströnd. Ljósm: hofdaskoli.is
Frá Skagaströnd. Ljósm: hofdaskoli.is
Fréttir | 04. apríl 2020 - kl. 13:33
Snjóþungur vetur á Skagströnd

Fara þarf 25 ár aftur í tímann eða til ársins 1995 til að finna jafn snjóþungan vetur og verið hefur á Skagaströnd síðustu tæpa fjóra mánuði. Snjóþyngslin hafa valdið miklu álagi á snjómokstursmenn, sem oft hafa þurf að sinna mokstri í snarvitlausum veðrum til að hægt sé að halda hjólum atvinnulífsins gangangi. Þetta kemur fram í pistli Ólafs Bernódussonar í Morgunblaðinu í dag þar sem hann skrifar um bæjarlífið á Skagaströnd.

Ólafur segir að Skagstrendingar séu að vísu ekki óvanir töluverðum snjó en nú í vetur hafi verið óvenju illviðrasamt. „Þeir sem hafa árlega stytt hjá sér veturinn með því að dvelja lengri eða skemmri tíma í sólarlöndum hafa ekki getað það nú vegna Covid 19, sem öllu stjórnar um þessar mundir,“ segir Ólafur. 

Hugsjón - útfararþjónusta
Þá segir hann frá nýju fyrirtæki á Skagaströnd, útfararþjónustunni Hugsjón. Fyrirtækið, sem er í eigu hjónanna Hugrúnar Sifjar Hallgrímsdóttur og Jóns Ólafs Sigurjónssonar, mun þjónusta allt Norðurland vestra þar sem engin útfararþjónusta er fyrir hendi á svæðinu. Fyrirtækið hefur fjárfest í fallegum fjórhjóladrifnum Lincol-líkbíl til að vera ekki eins háð tíðarfarinu.

„Segja má að hjónin kunni vel til verka því hann er meðhjálpari við Hólaneskirkju og hefur sem slíkur oft stjórnað útförum þaðan. Konan er svo organisti og kórstjóri við kirkjuna auk þess að vera mjög góð söngkona sjálf. Útfararþjónustan mun bjóða upp á alla þjónustu frá A til Ö sem viðkemur útförum á svæðinu.“

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga