Mynd: AST Norðurland vestra
Mynd: AST Norðurland vestra
Fréttir | 06. apríl 2020 - kl. 18:03
Höldum óþarfa ferðalögum í lágmarki

Aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra beinir tilmælum til íbúa svæðisins að virða tilmæli sóttvarnarlæknis og almannavarna um að halda óþarfa ferðalögum í lágmarki. Á það sérstaklega við páskahelgina sem alla jafna er mikil ferðahelgi. „Það er ekki að ástæðulausu að almenningur hefur verið hvattur til ferðalaga innanhús nú um páskana. Fylgjum tilmælum sem gefin hafa verið út varðandi ferðalög og almennar sóttvarnir og hlýðum Víði því við erum jú öll almannavarnir,“ segir í tilkynningu.

Aðgerðastjórn hefur jafnframt birt nýjar tölur um stöðuna á kórónuveirufaraldrinum á Norðurlandi vestra. Nú eru 23 einstaklingar í einangrun, 16 í Húnaþingi vestra og 3 í Skagafirði. Alls eru 60 í sóttkví, 26 í Húnaþingi vestra, 11 í Austur-Húnavatnssýslu og 23 í Skagafirði. Þrettán einstaklingar hafa náð bata og 408 hafa lokið sóttkví.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga