Nöldrið | 21. apríl 2020 - kl. 09:52
Veirufjandinn

Þessi óútreiknanlegi veirufjandi sem nú æðir um heiminn og hefur skert lífsgæði okkar í margar vikur virðist aðeins vera að gefa eftir um þessar mundir og nú er það undir okkur komið, fólkinu í landinu að fara varlega og fara eftir öllum þeim reglum sem settar hafa verið um hvernig við eigum að haga okkur. Ég, eins og þorri landsmanna hef tröllatrú á þríeykinu svokallaða sem daglega leggur línurnar og hef reynt að hlýða þeim í einu og öllu. Ég tel að hér á Íslandi hafi verið farin hárrétt leið með því að láta sérfræðingana ráða för, fólkið sem helst hefur vit og þekkingu á því hvernig bregðast á við í aðstæðum sem þessum og gefa stjórnmálamönnunum frí frá ákvarðanatökum varðandi þennan stór hættulega sjúkdóm. Þingmennirnir hafa sumir átt afskaplega erfitt með að sætta sig við að geta ekki látið ljós sitt skína því sumir hverjir virðast telja sig hafa meira vit á þessum málum en sérfræðingarnir sem halda þjóðinni upplýstri á jákvæðum nótum alla daga og hafa þegar vakið athygli víða um heim.

Við Austur-Húnvetningar höfum átt því láni að fagna að losna við COVID-19 eftir því sem ég best veit og vonandi gerir hún engan usla hjá okkur úr þessu. Ég vil þakka starfsfólki Kjörbúðarinnar fyrir hvernig tekið hefur verið á almennum sóttvörnum þar, en það er jú sá staður sem flestir sækja, svo sem merkingum á gólfum, framboði á hönskum og handspritti fyrir viðskiptavini, hvað passað er upp á að ekki séu of margir í búðinni í einu o.s.frv. Þá þakkar þjóðin öll okkar frábæra listafólki sem streymir til okkar list sinni í sjónvarpi, tölvum og fjölmörgum miðlum þar sem boðið er upp á söng, hljóðfæraleik, leiklist, ljóðalestur og alls konar sprell og fróðleik. Framboðið hefur verið mikið en líklega hefur enginn listamaður slegið jafn rækilega í gegn og Helgi Björns, sem hefur hvert laugardagskvöld haldið uppi fjörinu með sínum frábæru hljóðfæraleikurum og gestum. Mér skilst að nánast þjóðin öll sitji fyrir framan skjáinn þegar Helgi slær í gandinn. Kærar þakkir til ykkar allra. Það er sem ég segi og hef margsagt: Menningin blífur.

Sameiningarmálin í Austur-Húnavatnssýslu eru mér enn hugleikin. Ég varð verulega hugsi yfir þeim fréttum að sameiningarnefndin hefði óskað eftir því við nágrannasveitarfélögin í austri og vestri kæmu að borðinu með eina allsherjar sameiningu Norðurlands vestra í huga. Í mínum huga þýddi þetta eitt. Nefndin er komin í strand og ekki tilbúin að takast á við næstu skref sem fjalla um framtíð sýslunnar, ræða ágreining og erfið mál og taka erfiðar ákvarðanir. Svarið sem kom frá byggðarráði Húnaþings vestra var sérlega diplómatískt, en hárbeitt. Ráðið telur eðlilegt að áður en víðtækar sameiningar sveitarfélaga í öllum landshlutanum komi til umræðu verði reynt á sameiningarvilja sveitarfélaganna í Austur-Húnavatnssýslu. Og þar stendur kannski hnífurinn í kúnni. Er raunverulegur vilji til að sameina sveitarfélögin í sýslunni? Hvað knýr viðræðurnar áfram? Eru þær knúnar áfram af sameiginlegri sýn forsvarsmanna sveitarfélaganna á framtíðina og vilja til að móta hana fyrir íbúa eða fara þær fram vegna þess að ríkisvaldið ætlar að sameina sveitarfélög með lögboði? Fjalla þær eingöngu um peninga og eignir, eða fjalla þær um að byggja upp öflugt sveitarfélag þar sem sérstaða hvers og eins fái notið sín og allir róa í sömu átt?

Og svo er að koma sumar. Loksins. Eftir langan og erfðan vetur heyrum við nú fuglasöng og óðum gengur á snjóskaflana sem eru ekki lengur hvítir heldur óhreinir og ljótir. Það er alltaf gaman að sjá og heyra í vinum okkar gæsunum þó sumir kunni ekki að meta sönginn þeirra, þá minnir hann á okkur þó á sumarið.

Mér finnst að við eigum það skilið að fá gott sumar eftir þennan ömurlega vetur og með þá von í brjósti óska ég þess að við njótum öll sumarsins.

Gleðilegt sumar, Nöldri.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga