Frá Blönduósi. Ljósm: Höskuldur B. Erlingsson
Frá Blönduósi. Ljósm: Höskuldur B. Erlingsson
Fréttir | 14. maí 2020 - kl. 09:02
Sóknaráætlanir fá 200 m.kr. viðbótarfjárveitingu

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti nýlega 200 milljóna króna viðbótarfjárveitingu í sóknaráætlanir landshluta en hún er liður í fjárfestingarátaki stjórnvaldi til að sporna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru og styðja við verkefni á landsbyggðinni. Norðurland vestra fær samtals 26 milljónir.

Viðbótarfjárveitingin mun renna til sjö landshlutasamtaka sveitarfélaga á landsbyggðinni. 150 milljónir króna skiptast jafnt á milli landshluta og 50 milljónir dreifast á landshluta að teknu tilliti til hlutfalls atvinnutekna í gistingu og veitingum árið 2018 á hverju svæði fyrir sig. Hver landshluti fær því samtals á bilinu 25,2 til 36 milljónir til ráðstöfunar.

90 tillögur að átaksverkefnum
Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra auglýstu á dögunum eftir hugmyndum að átaksverkefnum til að styrkja og fengu sendar 90 tillögur. Gert ráð fyrir að verkefni á sviði ferðaþjónustu, ásamt nýsköpun, verði fyrirferðamest. Til ráðstöfunar með þessum hætti verða allt að 50 milljónir króna. Stjórn SSNV tekur afstöðu til tillagnanna í þessari viku.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga