Rusla af ströndinni. Ljósm: biopol.is
Rusla af ströndinni. Ljósm: biopol.is
Fréttir | 20. maí 2020 - kl. 07:10
Biopol vaktar ströndina á Víkum á Skaga

Sjávarlíftæknisetrið Biopol á Skagaströnd heldur úti strandvöktun samkvæmt aðferðafræði og leiðbeiningum frá OSPAR, sem er samningur um verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins. Þetta er þriðja árið sem Biopol tekur þátt í verkefninu og vaktar ströndina á Víkum á Skaga. Ströndin er ein af sex OSPAR ströndum hér á landi. Tilgangurinn með vöktuninni er að draga úr skaðsemi vegna mengunar á hafi og ströndum með því að finna út hvaðan rusl á ströndunum kemur, hversu hratt það safnast upp á ströndunum og fleira. Sagt er frá þessu á vef Biopol.

Nánar má lesa um OSPAR verkefnið á vef Umhverfisstofnunar.

Á ströndinni í Víkum er talsvert af rekaviði og er hún því söfnunarsvæði fyrir rusl sem flýtur á haffletinum. Mest af ruslinu sem finnst þar er plast sem fylgir sjómennsku en plast er almennt í yfirgnæfandi meirihluta alls rusls sem finnst í íslenskum fjörum, að því er segir á vef Biopol.

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd var mikið rusl á þessum 100 metra kafla í fjörunni sem var hreinsuð síðasta haust.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga