Fréttir | 20. maí 2020 - kl. 20:39
Íþróttamiðstöðin á Blönduósi opnar á ný

Íþróttamiðstöðin á Blönduósi opnar á ný föstudaginn 22. maí klukkan 06:30. Í tilkynningu segir að vegna viðgerða opni sundlaugin seinna en að opið verði í pottana, vaðlaugina, köldu körin og gufuna. Önnur þjónusta Íþróttamiðstöðvarinnar verður ekki í boði að svo stöddu. Þreksalurinn opnar mánudaginn 25. maí klukkan 06:30.

Opnunartími til 1. júní verður þessi:

Mánudaga og miðvikudaga kl. 06:30-21:00
Þriðjudaga og fimmtudaga kl. 07:45-21:00
Föstudaga kl. 06:30-17:00
Laugardaga kl. 10:00-16:00
Sunnudaga kl. 10:00-16:00

Fjöldi sundgesta verður takmarkaður og rík áhersla lögð á hreinlæti, sóttvarnir og tveggja metra regluna. Fjöldi gesta er miðaður við starfsleyfi viðkomandi laugar eða baðstaðar og er reglan sú að gestir mega aldrei vera fleiri en nemur helmingi hámarksfjölda samkvæmt starfsleyfi. Börn fædd árið 2015 eða síðar teljast ekki með í gestafjölda. Hámarksfjöldi er um 30 manns í þessu fyrsta skrefi. Takmarkanirnar verða svo rýmkaðar í skrefum fram að 15. júní þegar gert er ráð fyrir 100% fjölda gesta.

Hver sundlaugargestur hefur klukkustund á svæðinu eftir innskráningu. Sundlaugargestir eru beðnir að staldra eins stutt við í búningsklefum eins og hægt er. Þá eru þeir beðnir um að sýna tillitssemi og sveigjanleika og sýna náunganum og starfsfólki ávallt virðingu og kurteisi. Sundlaugargestum er velkomið að hringja á undan sér til að fá upplýsingar um gestafjölda.

Gestir mega ekki koma í sund ef þeir:

  1. Eru í sóttkví.
    b. Eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu sýnatöku).
    c. Hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.
    d. Eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang o.fl.).

Sjá nánar á vef Íþróttamiðstöðvarinnar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga