Fréttir | 22. maí 2020 - kl. 15:16
Smábæjarleikunum aflýst í sumar

Smábæjarleikunum á Blönduósi hefur verið aflýst í sumar. „Þessi ákvörðun er tekin með þungum hug en að vel ígrunduðu máli,“ segir í tilkynningu frá stjórn knattspyrnudeildar Hvatar. Smábæjarleikarnir hafa verið haldnir 16 sinnum á Blönduósi en þeir eru fyrir knattspyrnulið yngri aldursflokka, bæði pilta og stúlkur. Í fyrra mættu um 400 keppendur og um 300 aðstandendur þeirra á leikana.

Í tilkynningu frá stjórn knattspyrnudeildarinnar segir að mótið sé brothætt í eðli sínum hvað fjölda þátttakenda varði og að hvert einasta lið skipti máli. Því sé öðruvísi farið á stóru mótunum hjá stærri félögum þar sem jafnvel 10-15 lið til eða frá skipti ekki sköpum.

„Við erum hins vegar aldeilis ekki að gefa upp laupana og ætlum okkur að koma sterk inn á næsta ári. Því vonum við innilega að þau félög sem hafa haldið tryggð við okkur undanfarin ár og þau félög sem áhuga hafa á að koma á Smábæjaleikana skilji þessa ákvörðun okkar og mæti til okkar galvösk að ári,“ segir í tilkynningunni.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga