Frá Skagaströnd
Frá Skagaströnd
Fréttir | 26. maí 2020 - kl. 11:44
Jákvæð rekstrarniðurstaða hjá Skagaströnd

Sveitarfélagið Skagaströnd var rekið með 22,8 milljón króna afgangi í fyrra en afkoman var einnig jákvæð árið 2018, þá um 16,5 milljónir. Tekjur A-hluta voru 587 milljónir og rekstrargjöld án afskrifta námu rúmlega 572 milljónum. Rekstur A-hluta fyrir afskriftir, fjármunatekjur og fjármagnsgjöld var því jákvæður um 15 milljónir. Rekstrarniðurstaða A-hluta að teknu tilliti til fjármunatekna og afskrifta var neikvæð um tæpar 3 milljónir króna.

Í ársreikningi kemur fram að rekstrartekjur samstæðunnar voru 680 milljónir króna en voru 610 milljónir árið 2018 og hafa því hækkað um 11,4% á milli ára. Heildareignir sveitarfélagsins námu í árslok 2019 1.831 milljón króna og eigið fé var 1.347 milljónir. Langtímaskuldir sveitarfélagsins námu 230 milljónum og tilheyra þær eingöngu félagslegum íbúðum. Engin ný lán voru tekin á árinu. Veltufjárhlutfall samstæðunnar var 7,56 en var 7,59 í árslok 2018. Samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi var veltufé frá rekstri samstæðunnar um 81 milljón og handbært fé frá rekstri um 51 milljón. Handbært fé samstæðunnar nam 471 milljón í árslok. Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum námu rúmlega 73 milljónum og söluverð rekstrarfjármuna og eignarhluta nam 49 milljónum.

Sveitarstjórn ræddi ársreikninginn á fundi sínum 19. maí síðastliðinn og var hann samþykktur og áritaður að lokinni umræðu.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga