Ásmundur á Skagaströnd í gær. 
Ljósm: FB/asmundureinar
Ásmundur á Skagaströnd í gær. Ljósm: FB/asmundureinar
Fréttir | 28. maí 2020 - kl. 15:39
Starfsfólk Greiðslustofu atvinnuleysistrygginga á Skagaströnd á hrós skilið

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra heimsótti Greiðslustofu atvinnuleysistrygginga á Skagaströnd í gær. Ásmundur segir frá heimsókn sinni á Facebook síðu sinni og tekur fram að það séu ekki margir sem viti að þarna fari í gegn allar umsóknir og greiðslur um atvinnuleysisbætur á Íslandi.

Í mars síðastliðnum unnu 19 starfsmenn hjá stofnuninni en í dag eru þeir orðnir 27. Greiddir hafa verið út ríflega 20 milljarðar í atvinnuleysisbætur á þessu ári og í apríl reiddu um 50 þúsund manns sig á greiðslur frá stofnuninni. Það er tíföldun frá eðlilegu árferði en að jafnaði eru greiddar atvinnuleysisbætur til 5-6 þúsund einstaklinga í hverjum mánuði.

„Starfsfólkið þarna hefur staðið í ströngu á erfiðum tímum og á hrós skilið fyrir ósérhlífnina undanfarna mánuði. Það er magnað að finna kraftinn og jákvæðnina hjá starfsfólkinu og þessi starfsemi er mjög gott dæmi um vel heppnaðan flutning opinberra starfa út á land,“ segir Ásmundur Einar í færslu sinni á Facebook.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga