Ásmundur Einar. Ljósm: n4.is
Ásmundur Einar. Ljósm: n4.is
Fréttir | 28. maí 2020 - kl. 16:44
Átta ný opinber störf til Sauðárkróks

Starfsemi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á Sauðárkróki verður efld og verður auglýst eftir starfsfólki á næstunni. Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra segir, í samtali við sjónvarpsstöðina N4, fyrirhugað að setja á laggirnar nýtt svið innan stofnunarinnar sem sinni sérstaklega brunavörnum og starfsemi slökkviliða í landinu.

„Þetta eru átta ný störf sem verða til á Sauðárkróki. Starfsmenn þar eru nú rúmlega tuttugu talsins, þannig að starfsstöðin verður efld verulega. Með þessu skrefi verða fjögur svið innan stofnunarinnar, tvö í Reykjavík og svo tvö fyrir norðan. Þegar ný störf verða til er einboðið að horfa sérstaklega til landsbyggðarinnar, starfsemin á Sauðarkróki er öflug og þar er mikil þekking á þeim málaflokkum sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sinnir. Þess vegna teljum við sjálfsagt að þetta nýja svið verði fyrir norðan,“ segir Ásmundur Daði Einarsson í viðtali á N4 sem sjá má hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga