Hrútey
Hrútey
Fréttir | 03. júní 2020 - kl. 15:45
Blönduósbær fær styrk til göngu- og hjólreiðastígagerðar við Hrútey

Blönduósbær sótti nýverið um 35 milljón króna styrk til Vegagerðarinnar vegna framkvæmda við hjóla- og göngustígagerð, með nauðsynlegri göngubrú, við Hrútey í Blöndu. Vegagerðin tók jákvætt í umsóknina en þar sem búið var að ráðstafa öllum styrkjum af þessari gerð fyrir árið í ár er áætlað að greiða styrkinn, sem samþykktur var að fjárhæð 30 milljónir, á næsta ári eða þegar framkvæmdum er að fullu lokið.

Búið er að gera drög að samningi milli Blönduósbæjar og Vegagerðarinnar þar sem gert er ráð fyrir að verkið hefjist í sumar og ljúki fyrir 1. júní á næsta ári. Blönduósbær verður verkkaupi og framkvæmdaraðili verksins. Verkið felst í að endurgera gömlu Blöndubrúnna sem hjóla- og göngubrú, stígagerð og stígalýsingu út í fólkvanginn Hrútey ásamt nauðsynlegum framkvæmdum til að tryggja aðgengi allra að útivistarsvæðinu. Núverandi göngubrú er álagsskemmd og uppfyllir ekki aðgengi fyrir alla. Áætlaður heildarframkvæmdakostnaður er um 72 milljónir króna.

Blönduósbær hefur á undanförnum árum unnið að gerð göngu- og hjólastíga frá ósum Blöndu að fólkvanginum í Hrútey og er stígurinn um tveggja kílómetra langur. Árið 2018 var ráðist í að lagfæra aðgengi að Hrútey og var gerð ný aðkoma, bílastæði og frágengin stígur að göngubrú út í eyjuna.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga