Selma er afar stolt af Sýrlendingunum.
Selma er afar stolt af Sýrlendingunum.
Fréttir | 11. júní 2020 - kl. 12:16
Sýrlendingarnir komnir með íslensk ökuréttindi

Sýrlenska flóttafólkið sem kom til Blönduóss og Hvammstanga á síðasta ári hefur verið í bóklegu og verklegu ökunámi í vetur hjá ökukennaranum Selmu Svavarsdóttur. Af 18 fullorðnum höfðu 16 áhuga á að öðlast íslensk ökuréttindi en níu voru fyrir með sýrlensk ökuskírteini. Eftir námið í vetur eru þau nú öll komin með íslensk ökuskírteini. Í vikunni luku síðustu fimm konurnar í hópnum verklegu prófi. Selma hefur verið ökukennari í 20 ár og hefur hún kennt á bíl í Húnavatnssýslunum báðum og víðar um land.

Hún segir að í fyrrasumar hafi hún verið beðin um að koma á fund með sýrlenska flóttafólkinu, sem hafði þá nýlega flutt til Blönduóss og Hvammstanga og útskýra fyrir því hvernig ökukennsla færi fram. „Þeir sem voru með próf að utan þurftu að fara í bóklegt og verklegt próf en þeir gátu keyrt á skírteinum sínum í sjö mánuði. Áður en sá tími leið þurftu þeir að ná prófum til að öðlast íslenskt ökuskírteini. Hinir sem vildu taka bílpróf frá grunni þurftu einnig að fara í bóklegt og verklegt nám og próf að því loknu eins og lög og reglur gera ráð fyrir,“ segir Selma og nefnir að verkefnið hafi ekki verið einfalt.

„Ég þurfti túlk til að hjálpa þeim við bóklega efnið fyrir prófið og túlkur kom í öll bókleg próf. Æfingaaksturinn fór fram hjá stuðningsfjölskyldunum sem ég færi bestu þakkir fyrir. Ég get ekki sagt að regluverkið henti vel. Við erum að bjóða þessu fólki að flytjast til landsins, á litla staði þar sem engar eru almenningssamgöngur. Fólkið verður að gjöra svo vel að fara í þessi próf til að halda ökuréttindum sínum áður en sjö mánuðir eru liðnir,“ segir Selma og spyr af hverju fólkið megi ekki fá lengri tíma því það þurfi að setja sig inn í ansi margt á skömmum tíma. „Eðlilegra væri að þau fengju um það bil 12 mánuði. Þau eru nýbúin að átta sig á umhverfinu, veðrinu, menningunni, málinu, matnum, skólanum og svo framvegis og þurfa svo með takmarkaða tungumálakunnáttu að fara að henda sér í bóklegt ökupróf. Það er bara erfitt. Ég myndi halda að fyrst þau fá að keyra á ökuskírteinum sínum í sjö mánuði þá ættu þau að fá að vera með þau í 12 mánuði. Ég fann það t.d. í vikunni þegar þessar fimm konur luku prófum hvað íslenskukunnáttan er orðin miklu miklu betri og allt verður auðveldara.“

Selma segir að allt hafi þetta þó hafist að lokum og að hún sé afar stolt af þessum hópi. „Öll hafa þau lagt mikið á sig til að ná prófunum. Þau lærðu og lærðu, voru jákvæð, glöð og þakklát, sama hvað. Ég er svo heppin að kynnast svona frábæru fólki.“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga