Frá Blönduósi
Frá Blönduósi
Fréttir | 25. júní 2020 - kl. 10:52
Framlög úr Jöfnunarsjóði til sveitarfélaga í Húnavatnssýslum lækka um tugi milljóna

Framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hafa verið endurskoðuð í takt við nýja áætlun um tekjur sjóðsins. Endurmeta þurfti tekjur sjóðsins vegna efnahagslegra áhrifa af Covid-19 faraldrinum. Hin nýja áætlun um tekjur sjóðsins gerir ráð fyrir að tekjur hans lækki um tæpa 3,8 milljarða króna. Mest lækka framlög sem byggja á skatttekjum ríkissjóðs, að því er segir í tilkynningu.

Það eru framlög vegna lækkandi tekna af fasteignaskatti, útgjaldajöfnunarframlög og almenn framlög vegna málefna fatlaðs fólks en þau síðastnefndu byggja bæði á framlögum vegna skatttekna ríkissjóðs og tekjum sjóðsins af álagningarstofni útsvars 2020.

Lækkun vegna fasteignaskatts og útgjaldajöfnunarframlaga nemur um 136 milljónum króna fyrir sveitarfélögin í Húnavatnssýslum, mest fyrir Húnaþing vestra eða um 60 milljónir króna. Fyrir Blönduósbæ nemur lækkunin um 39 milljónum, rúmlega 24,6 milljónum fyrir Húnavatnshrepp og um 16 milljónum fyrir Skagaströnd. Aftur á móti hækkar áætlað útgjaldajöfnunarframlag hjá Skagabyggð um tæpar 7 milljónir en á móti kemur lækkun tekna af fasteignaskatti um rúmar 3 milljónir.

Sjá nánari upplýsingar á vef Stjórnarráðsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga