Gréta María og launaseðillinn
Gréta María og launaseðillinn
Fréttir | 30. júní 2020 - kl. 14:17
Stórfurðulegur launaseðill frá Landspítala

Húnvetningurinn og hjúkrunarfræðingurinn Gréta María Björnsdóttir hefur vakið athygli fyrir færslu á Facebook í dag en þar birtir hún mynd af launaseðli sínum frá Landspítalanum. Gréta María starfaði sem bakvörður frá miðjum mars til miðs apríl þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst. Þrátt fyrir að vera í fæðingarorlofi með fimm mánaða gamalt barn heima mætti hún 5-6 kvöld í viku í tæpan mánuð og vann í um 150 klukkustundir. Umbunin er 1.094 krónur samkvæmt launaseðlinum.

Hún segir að þessi tími hafi verið ótrúlega krefjandi þar sem allir voru að læra á nýjan sjúkdóm undir nýjum og ótrúlega erfiðum aðstæðum. „Ekki nóg með að hafa þurft að vera kappklæddur í lokað plast frá toppi til táar þá fékk ég mikið ofnæmi fyrir gallanum og þá var það eina í stöðunni að klæða sig í aukaföt innanundir plastið og eyrnaband yfir eyrun yndir húfunni, sterakrem og ofnæmistöflur og haldið áfram að vinna.. og svo var bara skipt um rennandi blaut fötin þegar maður komst loksins út í pásu eftir þrjár klukkustundir í einu inni á gólfi. En þetta var bara svona, allir að hjálpast að og allir að fórna einhverju og það gerðu allir með bros á vör, slík var samstaðan og ákefðin um að komast í gegnum þessa tíma saman og reyna að halda sjúklingunum nógu stabílum til þess að koma þeim í gegnum þessa þrekraun, úr öndunarvél og aftur á fætur! Að sjá fólk útskrifast á almenna deild gerði þetta þess virði. Þess vegna hikaði ég ekki þegar ég fékk símtal frá Landspítalanum í síðustu viku þar sem óskað var eftir því að ég myndi vera tiltæk í næstu bylgju faraldursins, í næstu bakvarðarsveit,“ segir Gréta María í færslu sinni á Facebook.

Á launaseðlinum sem Gréta María fékk kemur fram að launin séu 6.775 krónur fyrir tímabilið 01.03.20-30.04.20, frádráttur 5.681 króna og þar af er staðgreiðsla 2.279 krónur og innheimtumaður ríkissjóðs 2.531 króna. Útborguð laun eru því 1.094 krónur. „Mig langar alls ekki að hljóma vanþakklát og ég var alls ekki að ætlast til né búast við miklu aukalega við mín laun en mér hefði þótt betra að fá ekki neitt heldur en þetta spark í þindina.. en bara þannig nákvæmlega líður mér,“ segir Gréta María og nefnir auðvitað sé ekki hægt að láta bjóða sér svona framkomu til lengri tíma.

 „Ég mun samt mæta í næstu bylgju covid, þrátt fyrir að ég verði sennilega enn í fæðingarorlofi.. en það verður einungis gert vegna samvisku minnar gagnvart sjúklingum og samstarfsfólki og vegna samfélagslegrar ábyrgðar,“ segir Gréta María að lokum í færslu sinni.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga