Fréttir | 03. júlí 2020 - kl. 10:42
Dagskrá Húnavöku 2020

Dagskrá Húnavöku er klár en hátíðin verður haldin á Blönduósi í 17. sinn dagana 16.-19. júlí. Á fimmtudeginum 16. júlí ætla Blönduósingar í þéttbýli og dreifbýli að skreyta hús sín hátt og lágt fyrir hátíðina. Lagt er til að bærinn verði fylltur af skemmtilegum og frumlegum fígúrum. Verðlaun verða veitt fyrir best skreytta húsið, frumlegustu og flottustu fígúruna og fyrir götuna með flestar fígúrur. Að kvöldi fimmtudagsins verður svo Bjórbingó í Félagsheimilinu.

Fyrirtækjadagurinn er á föstudeginum 17. júlí en þá ætla fyrirtæki og stofnanir á staðnum að opna hús sín fyrir gestum og bjóða upp á veitingar og tilboð. Fjölskylduskemmtun verður á skólalóðinni síðdegis þennan dag og Kótelettukvöld í Eyvindarstofu.

Hápunktur hátíðarinnar verður laugardaginn 18. júlí en þá fer fram golfmót á Vatnahverfisvelli, opið mót í ólympísku skeet á skotsvæði Markviss og árlegt Blönduhlaup USAH. Boðið verður upp á sögugöngu um gamla bæinn, útsýnisflug, orgeltónleika í Blönduóskirkju, sundlaugarpartý, fótboltaleik og margt fleira. Fjör verður við Félagsheimilið frá klukkan 13:30-16:00 með margvíslegri afþreyingu fyrir alla. Dagurinn endar svo á stórdansleik með Páli Óskari í Félagsheimilinu.

Sunnudaginn 19. júlí verður árleg Prjónaganga á Húnavöku, sápurennibraut í brekkunni fyrir neðan kirkjuna, spurningakeppni fjölskyldunnar, Stofutónleikar í Heimilisiðnaðarsafninu og Jóga með Svövu í Kvenfélagsgarðinum.

Nánar um dagskrá Húnavöku 2020 má sjá á Facebook síðu hennar og einnig er hún hér á meðfylgjandi myndum.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga