Mynd: skra.is
Mynd: skra.is
Fréttir | 05. júlí 2020 - kl. 11:05
Mest hlutfallsleg fjölgun á Norðurlandi vestra

Íbúafjölgun er hlutfallslega mest á Norðurlandi vestra eða 1,3% frá 1. desember 2019 til 1. júlí síðastliðinn samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands. Íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 0,8% á sama tímabili. Lítilsháttar fækkun varð í tveimur landshlutum, á Vestfjörðum um 0,5% og á Norðurlandi eystra um 0,1%.

Samkvæmt tölum Þjóðskrár um íbúafjölda eftir sveitarfélögum á landinu 1. júlí síðastliðinn búa nú 98 fleiri á Norðurlandi vestra en 1. desember 2019. Hlutfallslega var fjölgunin mest í Akrahreppi eða 2,4% en þar fjölgaði um 5 á tímabilinu og eru íbúar hreppsins nú 210 talsins. Íbúum í Húnavatnshreppi fjölgaði um 1,9% eða um 7 og eru þeir nú 377 talsins.

Íbúafjölgunin á Blönduósi og í Sveitarfélaginu Skagafirði er 1,6%. Blönduósingum fjölgaði um 15 og er nú orðnir 957 og íbúum í Sveitarfélaginu Skagafirði fjölgaði um 66 og er nú 4.103. Í Húnaþingi vestra hefur íbúum fjölgað um 7 eða um 0,6% og eru þeir nú 1.217 talsins. Íbúum fækkar um einn bæði á Skagaströnd og í Skagabyggð. Íbúafjöldinn á Skagaströnd er nú 472 og í Skagabyggð 89.

Sjá nánar um íbúafjölgun eftir sveitarfélögum á landinu hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga