Kortið sýnir hvar úrbætur verða gerðar Mynd: stjornarradid.is
Kortið sýnir hvar úrbætur verða gerðar Mynd: stjornarradid.is
Fréttir | 06. júlí 2020 - kl. 09:28
Unnið að úrbótum á 64 fjarskiptastöðvum með auknu varaafli eftir óveður í vetur

Neyðarlínan vinnur nú að því að gera úrbætur á 64 fjarskiptastöðvum víða um land með auknu varaafli og að fjölga færanlegum vararafstöðvum. Þar af eru 36 fastar vararafstöðvar og verða fimm þeirra í Húnavatnssýslum en annars staðar eru rafgeymar eða tenglar fyrir færanlegar rafstöðvar. Tilgangurinn er að tryggja rekstraröryggi í fjarskiptum eftir mikil óveður sem gengu yfir landið í vetur.

Í Húnavatnssýslum verða fastar rafstöðvar á Hvítabjarnarhóli, Grenjadalsfjalli, Laugarbakka, Hnjúkum og Steinnýjarstaðafjalli. Færanlegar rafstöðvar/tenglar verða á Stað, Hvammstanga, Blönduósi og Skagaströnd og rafgeymir/færanleg stöð/tengill á Hnjúk í Vatnsdal.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti nýverið að verkefnið fengi 125,5 milljóna kr. fjárveitingu á þessu ári á vegum fjarskiptasjóðs í tengslum við landsátakið Ísland ljóstengt. Fjárveitingarnar eru veittar á grundvelli fjárfestingaátaks stjórnvalda til að sporna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

„Óveðrið sem gekk yfir landið í vetur afhjúpaði marga veikleika í grundvallarkerfum okkar, rafmagnskerfinu og fjarskiptakerfinu. Sú vinna sem er hafin er hjá Neyðarlínunni með stuðningi fjarskiptasjóðs er mikilvægt skref í að tryggja örugg samskipti um allt land,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í tilkynningu.

Samstarf við Mílu, fjarskiptafélögin og RÚV
Neyðarlínan og fjarskiptasjóður hafa átt í nánu samstarfi við Mílu, fjarskiptafélögin Nova, Símann og Sýn (Vodafone) og Ríkisútvarpið um úrbæturnar. Í lok síðasta árs var sett af stað vinna að frumkvæði Neyðarlínunnar að fara ofan í saumana á því hvað þyrfti að gera til að bæta rekstraröryggi fjarskiptastöðva og tryggja að almenningur geti kallað eftir aðstoð í neyðarnúmerið 112 í vá eins og skapaðist í óveðrum síðasta vetur.

„Út úr þessari vinnu voru lagðar fram tillögur sem yfirvöld ákváðu að styðjast við,“ segir Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar. „Sú vinna er komin á fullt og í fyrri áfanga verksins á þessu ári verður unnið að úrbótum á 64 stöðum víða um land. Stefnt er að því að hefja seinni áfanga verkefnisins á næsta ári sem mun ná til þess hluta landsins sem eftir verður að loknu fyrri áfanga,“ segir Þórhallur.

Í fyrsta áfanga verður unnið að verkefnum á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. formað er að 100 milljónir bætist við þetta verkefni á næsta ári. Þá verður hugað að varaaflstöðvum á Suðurlandi og suðvesturhorni landsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga