Fréttir | 06. júlí 2020 - kl. 20:47
Brýnt að fjölga opinberum störfum á Norðurlandi vestra

Byggðarráð Húnaþings vestra telur afar brýnt að fjölga enn frekar opinberum störfum á Norðurlandi vestra og hvetur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur til að fylgja áfram eftir í verki eigin samþykkt þar um. Á fundi ráðsins í dag var rætt um opinber störf á landsbyggðinni og vísað sérstaklega til nýlegrar ákvörðunar félags- og barnamálaráðherra um fjölgun starfa hjá brunamálasviði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á Sauðárkróki.

Í bókun ráðsins segir: „Fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni er sveitarfélögum þýðingarmikið og mikilvægur þáttur í að efla atvinnu og auka fjölbreytileika atvinnulífs. Sveitarfélög á landsbyggðinni eru misjöfn að stærð og gerð en eiga það öll sammerkt að fjölgun opinberra starfa eykur samkeppnishæfni og skapar tækifæri til vaxtar og framþróunar.“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga