Fréttir | 07. júlí 2020 - kl. 13:33
Stórsigur í Stykkishólmi

Sameiginlegt lið Kormáks og Hvatar landaði sínum fyrsta sigri í sumar á Íslandsmótinu í knattspyrnu karla 4. deild B riðli. Liðið mætti í Stykkishólminn og spilaði gegn Snæfelli og endaði leikurinn með stórsigri Kormáks/Hvatar 7-0. Strax á fjórðu mínútu missti Snæfell mann út af með rautt spjald og áður en hálfleikur kom var lið Kormáks/Hvatar búið að sett þrjú mörk.

Eftirleikurinn var svo auðveldur og í seinni hálfleik komu fjögur mörk. Oliver James Kelaart Torres skoraði tvö mörk í leiknum og þeir Sigurður Bjarni Aadnegard, Hilmar Þór Kárason, Emil Óli Pétursson, Viktor Ingi Jónsson og Hlynur Rafn Rafnsson skorðu eitt mark hver.

Næsti leikur verður á Blönduósvelli sunnudaginn 12. júlí en það verður fyrsti heimaleikur liðsins í sumar. Eftir þrjá leiki situr Kormákur/Hvöt í fjórða sæti riðilsins með fjögur stig af níu mögulegum.
 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga