Nigel Hawkins og Róbert leiðsögumaður. Ljósm: FB/Blanda-Svartá
Nigel Hawkins og Róbert leiðsögumaður. Ljósm: FB/Blanda-Svartá
Fréttir | 09. júlí 2020 - kl. 07:58
Risa hængur veiddist í Blöndu

Laxveiði í Miðfjarðará er komin í 177 laxa samkvæmt nýjum tölum Landssambands veiðifélaga og er það svipaður fjöldi og á sama tíma í fyrra. Áin er í sjöunda sæti yfir aflahæstu ár landsins. Nýjar tölur hafa ekki borist um laxveiði í Blöndu en í gær veiddist stærsti fiskur sumarsins í ánni. Það gerðist á Breiðunni að norðanverðu er breski veiðimaðurinn Nigel Hawkins setti í 105 sentímetra langan hæng. Áður hafði veiðst 101 sentímetra hrygna í Blöndu.

Laxá á Ásum er komin í 131 lax, Víðidalsá í 78 laxa, Vatnsdalsá í 54 laxa og Hrútafjarðará í 26. Veiðitölurnar eru almennt aðeins hærri heldur en á sama tíma í fyrra. Laxveiði var afar dræm í fyrra og sérstaklega í samanburði við fyrri ár. Í norðanáttinni síðustu daga hefur dregið úr vatnssöfnun í Blöndulóni og því má gera ráð fyrir að Blanda fari ekki strax á yfirfall, en það gæti gerst síðar í mánuðinum.

Af laxveiðiám landsins hafa flestir laxar veiðst í Eystri-Rangá eða 667 á 18 stangir. Urriðafoss í Þjórsá er komin í 589 laxa á fjórar stangir og Norðurá í 404 laxa á 15 stangir.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga