“mar Bragi
“mar Bragi
Fréttir | 09. júlí 2020 - kl. 16:16
Unglingalandsmóti UMFÍ frestað um ár

Framkvæmdanefnd Unglingalandsmóts UMFÍ hefur ákveðið í samræmi við sóttvarnarlækni og Almannavarnir að fresta mótinu um ár. Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð og hefur hún verið ein af stærstu og fjölmennustu hátíðunum um verslunarmannahelgina. Mótið er aldrei haldið á sama stað tvö ár í röð og átti það að fara fram á Selfossi um verslunarmannahelgina í samstarfi við Héraðssambandið Skarphéðin og Sveitarfélagið Árborg.

Eins og á fyrri mótum mátti búast við hátt í 10.000 mótsgestum, þátttakendum á 11-18 ára aldri, foreldrum þeirra, systkinum og öðrum.

Undirbúningur mótsins hefur staðið yfir um langt skeið. Dagskráin var fullkláruð og átti að bjóða upp á um 20 keppnisgreinar alla verslunarmannahelgina og tónleika á kvöldin ásamt fjölda annarra viðburða og afþreyingar. Skráning hefur jafnframt verið í fullum gangi síðan um mánaðamót.

„Fjöldi fólks hefur lagt mikið á sig og hlakkað til Unglingalandsmóts UMFÍ á Selfossi. En við verðum að sýna ábyrgð og tryggja heilsu og öryggi allra þátttakenda og gesta mótsins. Þess vegna höfum við ákveðið að fresta mótinu um ár,“ segir Ómar Bragi Stefánsson, landsfulltrúi og framkvæmdastjóri móta UMFÍ í tilkynningu. Hann segir mótshaldara harma þessa niðurstöðu. En ákvörðunin sé vel ígrunduð og með almannahagsmuni í huga.

„Unglingalandsmót UMFÍ er flókinn viðburður þar sem þátttakendur skrá sig í margar ólíkar greinar og fara á milli svæða. Það eykur á flækjustigið og hættunni á að hópsmit komi upp,“ segir hann.

Ómar bendir jafnframt á að skipuleggjendur mótsins hafi unnið vel með sóttvarnarlækni og Almannavörnum að undirbúningi Unglingalandsmóts UMFÍ. Unnið hafi verið að því að fara eftir tilmælum um sóttvarnir. Fyrr í sumar voru væntingar um að hámarksfjöldi á samkomum yrði tvö þúsund manns. Við þær aðstæður sá nefndin fram á að mótshaldið gæti farið fram og uppfyllt öll skilyrði á sama tíma. En þar sem aðstæður hafi breyst og útlit fyrir að takmarkanir verði áfram mun reynast mjög erfitt að uppfylla öll skilyrði sem til staðar eru ásamt því að tryggja að það skipulag sem sett var upp haldi.

„Við viljum ekki taka þá áhættu sem er fólgin í því að halda áfram. Í þessu máli skiptir heildin mestu máli. Við hvetjum fjölskyldur eftir sem áður til að skemmta sér saman á heilbrigðum forsendum og búa til góðar minningar um verslunarmannahelgina 2020. Síðan sjáumst við saman á Unglingalandsmóti UMFÍ á Selfossi 2021,“ segir Ómar Bragi.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga