Fréttir | 10. júlí 2020 - kl. 14:14
Framleiðendur á ferðinni og bjóða vörur sínar

Tólf smáframleiðendur á Norðurlandi vestra og Vörusmiðja BioPol hafa tekið höndum saman um skemmtilegt verkefni en þeir hyggjast verða á ferðinni um svæðið í sumar á smábíl sínum og bjóða vörur sínar til sölu. Þar má meðal annars finna grænmeti, blóm og bætiefni, krem og kjöt svo eitthvað sé nefnt. Sagt er frá þessu á vef Feykis.

Framleiðendurnir tólf eru Breiðargerði, Gandur, Garðyrkjustöðin Laugarmýri, Grilllausnir Kambakoti,  Gróðurhúsið Starrastöðum, Hraun á Skaga, Kaldakinn II, Kjötvinnslan Birkihlíð, Pure Natura, Rúnalist, Skrúðvangur og Sölvanes.

Vörusmiðja BioPol á Skagaströnd heldur utan um verkefnið sem er eitt af sérstökum átaksverkefnum vegna áhrifa Covid 19 sem styrkt er af Sóknaráætlun Norðurlands vestra. Þórhildur M. Jónsdóttir, verkefnastjóri Vörusmiðjunnar, segir í samtali við Feyki að markmið verkefnisins sé að auka aðgengi neytenda á Norðurlandi vestra að vörum smáframleiðenda á svæðinu en viðkomustaðir bílsins verða frá Borðeyri í vestri til Ketiláss í Fljótum í austri.

Að sögn Þórhildar fer bíllinn tvær umferðir um svæðið í júlí og tvær í ágúst og hefst fyrsta ferðin á Hólum í Hjaltadal næsta mánudag. Ekki þarf að panta vörur fyrir fram, heldur er nóg að mæta á svæðið og gera kaup á staðnum. Þessa dagana er auglýsing um áætlun bílsins að berast inn um bréfalúguna hjá væntanlegum viðskiptavinum en einnig verður hægt að fylgjast með á Facebook síðunni Vörusmiðja BioPol.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga