Haldið upp á verklokin. Ljósm: stjornarradid.is
Haldið upp á verklokin. Ljósm: stjornarradid.is
Fréttir | 10. júlí 2020 - kl. 14:20
Orkuskipti á Kili

Nýverið var haldið upp á verklok þess að 67 kílómetra rafstrengur og ljósleiðari hefur verið lagður um Kjöl sem er einn af fjórum stofnvegum hálendis Íslands. Strengurinn leysir af hólmi díselvélar sem ferðaþjónustuaðilar hafa reitt sig á hingað til. „Þetta gerbreytir rekstrargrundvelli ferðaþjónustu á Kili og eykur fjarskiptaöryggi til mikilla muna á þessari fjölförnu hálendisleið sem í gegnum aldirnar hefur verið annáluð fyrir draugagang,“ segir á vef Stjórnarráðsins þar sem fjallað er um málið.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarpaði kaffisamsæti þeirra sem komu að verkefninu hjá hjónunum Vilborgu Guðmundsdóttur og Lofti Jónassyni í Myrkholti í Bláskógabyggð í gær og óskaði þar öllum til hamingju: „Orkuskipti á Kili eru mikilvæg aðgerð fyrir framtíðarsýn um umhverfisvæna ferðaþjónustu sem byggist á endurnýjanlegum orkugjöfum,“ sagði forsætisráðherra við þetta tækifæri en Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ávarpaði einnig samkomuna.

Í verkefninu taka einnig þátt sveitarfélögin Bláskógabyggð, Hrunamannahreppur, Húnavatnshreppur auk Neyðarlínunnar, Fjarskiptasjóðs, Rarik og ferðaþjónustufyrirtækja í Árbúðum, Kerlingafjöllum og Hveravöllum. Ríkið lagði 100 milljónir til verkefnisins en lagning strengsins kostaði um 285 milljónir. Með þessu heyra olíuflutningar til hálendismiðstöðva á svæðinu sögunni til. 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga