Frá slysstað. Mynd af vef Rúv frá Húnum.
Frá slysstað. Mynd af vef Rúv frá Húnum.
Fréttir | 14. júlí 2020 - kl. 07:55
Vöruflutningabíll ónýtur eftir veltu í Víðidal

Vöruflutningabíll með tengivagn fór út af þjóðvegi 1 skammt frá brúnni yfir Víðidalsá á tíunda tímanum í gærkvöldi. Bíllinn valt en tengivagninn hélst á hjólunum, að því er fram kemur á vef Ríkisútvarpsins. Á annan tug félaga úr Björgunarsveitinni Húnum á Hvammstanga vann hörðum höndum fram eftir nóttu að bjarga því sem bjargað varð af farminum og fjarlægja það sem ónýtt var.

Haft er eftir lögreglunni á Blönduósi að bílstjórinn hafi skrámast nokkuð í slysinu en ekki meiðst alvarlega og var hlúð að honum á staðnum. Bíllinn, sem var á leið frá Akureyri til Reykjavíkur, sé hins vegar gjörónýtur. Farmurinn var að uppistöðu til kjöt, fiskur og steinull. Steinullin var öll í tengivagninum en fiskurinn og kjötið dreifðust víða.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga