Fréttir | 14. júlí 2020 - kl. 08:04
Orgeltónleikar í Blönduóskirkju

Laugardaginn 18. júlí, um Húnavökuhelgina, heldur Lára Bryndís Eggertsdóttir orgeltónleikar í Blönduóskirkju klukkan 17-18. Á þeim má bæði heyra þjóðlagatengda tónlist, meðal annars hið magnaða tónaljóð Moldá (Vltava) eftir tékkneska tónskáldið Bedřich Smetana í umritun fyrir orgel, sem og alíslenska orgeltónlist eftir Vatnsdælinginn Báru Grímsdóttur. Lára Bryndís mun einnig kynna tónlistina og segja frá tilurð íslensku orgelverkanna.

Lára Bryndís byrjaði ung að læra á píanó og 14 ára gömul tók hún fyrstu skrefin sem afleysingaorganisti í Langholtskirkju. Hún lauk einleikaraprófi frá Tónskóla þjóðkirkjunnar með hæstu einkunn vorið 2002 undir handleiðslu Harðar Áskelssonar. Lára Bryndís flutti árið 2018 aftur heim til Íslands eftir 10 ára búsetu í Danmörku þar sem hún lauk meistaraprófi í kirkjutónlist frá Tónlistarháskólanum í Árósum vorið 2014. Aðalkennarar hennar þar voru Ulrik Spang-Hanssen og Lars Colding Wolf. Einnig starfaði hún sem organisti við Sønderbro kirkju í Horsens og semballeikari hjá barokksveitinni BaroqueAros í Árósum. Frá því í september 2018 hefur Lára Bryndís verið organisti Hjallakirkju í Kópavogi auk þess að kenna við Tónskóla Þjóðkirkjunnar.

Lára Bryndís hefur haldið fjölmarga einleikstónleika á orgel, bæði hérlendis og á hinum Norðurlöndunum. Árið 2014 stóð hún fyrir tónlistarverkefninu „Ég heyrði þytinn frá vængjum þeirra“ þar sem sjö íslensk tónskáld sömdu orgelverk að beiðni Láru – brot af þeim verkum má heyra á tónleikunum á laugardaginn.

Aðgangur er ókeypis á tónleikana en þeir eru hluti af Húnavökudagskránni.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga