Fréttir | 29. júlí 2020 - kl. 16:21
Nýtt starf auglýst hjá Blönduósbæ

Blönduósbær auglýsir nýtt starf menningar-, íþrótta- og tómstundafulltrúa laust til umsóknar. Hann á að hafa faglega umsjón með öllu menningar-, íþrótta- og tómstundastarfi Blönduósbæjar í góðu samstarfi við hlutaðeigandi aðila, að því er segir í tilkynningu á vef Blönduósbæjar. Þar kemur fram að starf forstöðumanns æskulýðsmiðstöðvar verður lagt niður, enda muni umsjón og þróunarvinna með starfsemi félagsmiðstöðvarinnar Skjólsins falla undir nýja starfi og eru áform uppi um að þróa nýtt frístundaheimili Blönduósbæjar.

Menningar-, íþrótta og tómstundafulltrúi verður einnig tengiliður við Landlæknisembættið og umsjónaraðili með verkefninu Heilsueflandi samfélag sem Blönduósbæjr hefur sótt um og hefst síðar á árinu. Hann heyrir beint undir sveitarstjóra og hefur starfsaðstöðu á skrifstofu Blönduósbæjar. Hann á að starfa í nánu samstarfi við stjórnendur grunnskóla og íþróttamiðstöðvar, ásamt því að vera tengiliður við félagasamtök sem eru með skipulagða íþrótta- og tómstundastarfsemi í sveitarfélaginu.

"Hér er um að ræða fjölbreytt og skemmtilegt tækifæri fyrir skapandi og skipulagðan einstakling til þess að taka þátt í að móta nýtt starf í vaxandi samfélagi," segir í tilkynningunni. Umsóknarfrestur er til 20. ágúst næstkomandi.

Auglýsingu um starfið má sjá hér.    

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga