Fréttir | 29. júlí 2020 - kl. 18:41
COVID-19 smitum að fjölga

Kórónuveirusmitum hefur fjölgað aftur á Íslandi síðustu daga og hvetur lögreglan á Norðurlandi vestra fólk til að fylgja ráðum almannavarna og landlæknis varðandi smitvarnir. Nýjar reglur hafa verið settar á varðandi heimsóknir á Heilbrigðisstofnunina á Hvammstanga. Aðeins einn til tveir heimsóknargestir mega heimsækja hvern íbúa hverju sinni.

Fólk er vinsamlegast beðið um að skipuleggja heimsóknir þannig að ástvinir fái ekki fleiri en eina til tvær heimsóknir á hverjum degi. Gestir geta eingöngu verið inni á herbergi íbúa og ekki setið með sínu fólki í borðsal eða setustofu. Gæta skal ítrasta hreinlætis og sprittið hendur í upphafi heimsóknar og í hvert sinn er snertir eru sameiginlegir fletir. Heimsóknargestir fari stystu leið inn á herbergi íbúa og stystu leið úr húsi að heimsókn lokinni. Þá er beðið um að sameiginlegir fletir verði snertir sem minnst og að tveggja metra reglan sé virt.

Leiðbeiningar frá Landlæknisembættinu

Að gefnu tilefni er ástæða til að biðja landsmenn um að fara eftir tilmælum Landlæknisembættisins, almannavarna og sóttvarnarlæknis, huga vel að persónulegu hreinlæti til að draga úr sýkingarhættu og virða takmarkanir.

Leiðbeiningar til almennings frá Landlæknisembættinu:

  • Handhreinsun og hreinlæti kringum augu, nef og munn ásamt öruggri meðhöndlun fæðu eru lykilatriði til að forðast smit og fækka smitleiðum í þeim tilgangi að draga úr líkum á alvarlegum veikindum.
  • Kórónaveiran Novel (COVID-19) hagar sér í sumu eins og inflúensa, einkenni eru svipuð og smitleiðir áþekkar.
  • Einkenni líkjast helst inflúensusýkingu, hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir, þreyta o.s.frv. Kórónaveiran Novel getur einnig valdið alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingum og lungnabólgu, sem koma oft fram sem öndunarerfiðleikar á 4.-8. degi veikinda.
  • Ef einstaklingar finna fyrir veikindum er þeim bent á að hringja í síma 1700 (fyrir erlend símanúmar +354 544-4113) varðandi nánari upplýsingar og hvernig þeir eigi að nálgast heilbrigðiskerfið.
  • Þessir einstaklingar eru sérstaklega beðnir um að mæta ekki á bráðamóttöku sjúkrahúsa eða á heilsugæslustöðvar nema að fengnum ráðleggingum í síma.
Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga