Norðurland vestra
Norðurland vestra
Fréttir | 06. ágúst 2020 - kl. 10:36
Íbúafjöldi stendur í stað milli mánaða

Engin breyting hefur orðið á fjölda íbúa á Norðurlandi vestra í júlí en talsverðar breytingar eru innan einstakra sveitarfélaga. Þannig fjölgaði íbúum Skagastrandar um 12 en fækkaði um 10 á Blönduósi. Fjöldi íbúa í landshlutanum var 7.425 1. ágúst síðastliðinn sem er sami fjöldi og 1. júlí. Flestir búa í Sveitarfélaginu Skagafirði eða 4.100 og en þar fækkaði um þrjá milli mánaða.

Íbúar Skagastrandar voru 484 1. ágúst og fjölgaði um 12 eins og áður sagði. Frá 1. desember 2019 til 1. ágúst síðastliðinn nemur fjölgunin 11 eða 2,3%. Íbúum Blönduós fækkaði í júlí um tíu og voru 947 talsins 1. águst. Íbúum sveitarfélagsins hefur fjölgað um fimm frá 1. desember 2019 eða um 0,5%.

Íbúum Húnavatnshrepps fækkaði um þrjá í júlí og voru 1. ágúst 374 talsins. Frá 1. desember hefur íbúum fjölgað um 4 eða 1,1%. Íbúum Húnaþings vestra fjölgaði um sjö í júlí og voru 1.224 1. águst. Frá 1. desember hefur þeim fjölgaði um 14 eða 1,2%. Íbúum í Skagabyggð hefur fækkað um tvo frá 1. desember 2019 og eru nú 88 talsins.

Þessar upplýsingar má finna á vef Þjóðskrár Íslands. Þar kemur fram að íbúum fækkar í 21 sveitarfélagi af 72 frá 1. desember 2019 til 1. ágúst 2020. Lítilsháttar fækkun varð í tveimur landshlutum, Vestfjörðum og á Norðurlandi eystra. Fækkunin á Vestfjörðum nam 0,8% en á Norðurlandi eystra um 0,1%. Íbúum á Norðurlandi vestra fjölgaði um 98 eða um 1,5%. Íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 1,0 % eða 2.382 íbúa.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga