Hofskirkja. Ljósmynd: kirkjukort.net
Hofskirkja. Ljósmynd: kirkjukort.net
Pistlar | 10. ágúst 2020 - kl. 12:45
Stökuspjall: Hofsmessu frestað um tvær vikur

Á sunnudaginn kemur, þann 16. ágúst átti að halda guðsþjónustu á Hofi, fæðingarstað Jóns Árnasonar bókavarðar og fleiri Jóna, s. s. Jóns Pálssonar fv. skólastjóri, en þau hjón á Kúskerpi hafa ætíð komið til liðs við hirð þessa kunna nafna hans. Á afmælisdegi JÁ, 17. ágúst í fyrra var málþing og veislur auk messunnar á Hofi, heimsóknir landsbókavarðar sjálfs og forseta lýðveldisins, sagnfræðingsins, Guðna Th. Jóhannessonar sem tók þátt í málþinginu. Þá voru nákvæmlega 200 ár liðin frá fæðingu þjóðsagnasafnarans.

En guðsþjónustunni frestum við um tvær vikur, stefnum á sunnud. 30. ágúst í þeirri von að veirufaraldurinn verði þá farinn að réna að marki.

En meðan við reynum að standa af okkur kófið og sjáum til með hvort hægt verði að hittast í Hofskirkju sun. 30. ágúst skulum við setjast hjá skáldinu úr Langadalnum, Guðmundi Frímann sem fundið hefur áður kunnan stað á bakka jökulelfunnar:

Sit ég fram við stríðan straum
stari í augun bláu.
Það á hver sinn dægurdraum
við dimmu fjöllin háu.

Í ljóði sínu Kveðja til Árdalsins, biður skáldið svaninn að bera kveðju sína:

2. Þú munt fljúga yfir dal nokkurn, sem eg sjálfur þekkti,
hann er segull minnar löngunar og ævintýraskrín. –
Og farir þú hjá kotbæ og einhver úti vekti,
þú átt að skila kveðju, – það er fararbænin mín.

6. Eg bið að heilsa Blöndu með óðinn alvarlega
með úlfgráum söndum kringum jökulstrenginn sinn.
Í huga minn á æskuárum söng hún sorg og trega
er síðan hefir fylgt mér – eins og skugginn minn.

8. Eg bið að heilsa varg í urð og val í Hrafnaklettum
og vatnabarni litlu í faðmi hamrasals.
Eg bið að heilsa engjunum og iðjagrænum sléttum
– og öllu því sem dásamar minning Langadals.

Foreldrar Guðmundur, Frímann og Valgerður, sem bjuggu við starengjar og vallendisbrekkur í Hvammi, fá svo lokavísuna:

9. Þó hefði eg fyrst mátt telja gamlan mann og gamla konu
er græddu jörð, er fyrrum var úfin þúfnarein.
Þau ólu upp í koti nokkra stóra, sterka sonu
er straumur tímans hremmdi, – eg var einn af þeim.

Tengt efni:
Landsbókasafnið: https://landsbokasafn.is/
Heiður Jóni Árnasyni 1819-2019  https://www.huni.is/?cid=16123
Stökuspjall frá afmælisárinu: https://www.huni.is

/index.php?pid=58&cid=15980

Kalt er við kórbak, stökuspjall: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=15980   
GFr./Kveðja til Árdalsins: https://bragi.mmagnusson.net/hunafloi/ljod.php?ID=4609    
 
Ingi Heiðmar Jónsson
Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga