Frá Auðkúlurétt
Frá Auðkúlurétt
Fréttir | 03. september 2020 - kl. 13:21
Undanþága veitt frá fjöldatakmörkunum í Undirfellsrétt og Auðkúlurétt

Um helgina verður rétta í fjölmörgum fjárréttum í Húnavatnssýslum. Sökum sóttvarnaráðstafana vegna Covid-19 og fjöldatakmarkana, sem miðast við 100 manns, verður gestum ekki heimilt að koma í réttir eins og verið hefur. Undanþága hefur verið veitt fyrir Undirfellsrétt í Vatnsdal, sem hefst á morgun og stendur fram á laugardag, og mega 150 manns vera við réttarstöf hvorn dag. Auðkúlurétt hefur einnig fengið undanþágu og mega 175 manns vinna við réttarstörf á laugardaginn. Aðgöngumiðar hafa verið sendir til fjáreigenda.

Undanþágurnar eru háðar skilyrðum, s.s. að haldinn sé listi yfir einstaklinga sem koma í réttina, að upplýsingar um sóttvarnarráðstafanir og tveggja metra regluna séu sýnilegar, að handspritt og handþvottaaðstaða sé til staðar, að talning inn og út af svæðinu sé skilvirk og að ábyrgðarmaður réttarstafa sendi fólk sem sýnir einhver flensueinkenni tafarlaust af vettvangi. Sjá nánar fleiri skilyrði á vef Húnavatnshrepps.

Enginn má koma í Undirfellsrétt eða Auðkúlurétt nema viðkomandi hafi aðgöngumiða. Aðilar sem eru að flytja fé úr réttum er óheimilt að fara inn í réttir og aðstöðuhús. Þá eru þeir starfsmenn sem koma til rétta beðnir um að ganga um þá dilka sem þeim hefur verið úthluta, inn í réttina.

Fjárréttir um helgina í Húnavatnssýslum:

Auðkúlurétt við Svínavatn, A.-Hún. laugardaginn 5. sept. kl. 8.00
Hlíðarrétt/Bólstaðarhlíðarrétt, A.-Hún.  laugardaginn 5. sept.
Hrútatungurétt í Hrútafirði, V.-Hún. laugardaginn 5. sept.
Miðfjarðarrétt í Miðfirði, V.-Hún. laugardaginn 5. sept. um kl. 13.00
Skrapatungurétt í Laxárdal, A.-Hún. sunnudaginn 6. sept. kl. 9.00
Sveinsstaðarétt, A.-Hún. sunnudaginn 6. sept. kl. 10.00
Undirfellsrétt í Vatnsdal, A.-Hún. föstudaginn 4. sept. kl. 13.00 og lau. 5. sept. kl. 8.00
Valdarásrétt í Fitjárdal, V.-Hún. föstudaginn 4. sept. kl. 9.00
Víðidalstungurétt í Víðidal, V.-Hún. laugardaginn 5. sept. kl. 10.00

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga