Mynd: asi.is
Mynd: asi.is
Fréttir | 11. september 2020 - kl. 14:41
Mikill verðmunur á matvöru á landsbyggðinni

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði á þriðjudaginn matvöruverð í 15 minni matvöruverslunum á landsbyggðinni. Í ljós kom að í um helmingi tilfella var yfir 80% munur á hæsta og lægsta verði á þeim vörum sem verð var kannað á. Á 56 vörutegundum af þeim 103 sem kannaðar voru, var 60-140% munur á hæsta og lægsta verði og yfir 140% verðmunur á 12 vörutegundum. Mikill verðmunur var á hæsta og lægsta verði í öllum vöruflokkum. Sagt er frá þessu á vef ASÍ.

Verslanir á Norðurlandi vestra sem eru í könnuninni eru Hlíðarkaup á Sauðárkróki og Skagfirðingabúð á Sauðárkróki.

Sem dæmi um mikinn verðmun á milli verslana í könnuninni má nefna að 106% eða 1.373 kr. munur var á hæsta og lægsta kílóverði af brauðosti og 103% eða 1.183 kr. munur á hæsta og lægsta kílóverði af Cheerios. Á ungnautakjöti var 100% eða 1.597 kr. munur á hæsta og lægsta kílóverði, á smjöri var um 50% verðmunur og um 60-70% munur var á verði á mismunandi brauðtegundum. Þá var mikill munur á hæsta og lægsta kílóverði á þvottaefni eða 156% og 80% á kaffipúðum.

Sem dæmi um verðmun innan vöruflokka var í flestum tilfellum um 80-100% munur á hæsta og lægsta verði á kjöti og fiski, yfirleitt um eða yfir 100% verðmunur á dósamat og þurrvöru og oft um 80-100% munur á snakki og gosi og annarri drykkjarvöru. Þrátt fyrir mikinn verðmun í öllum vöruflokkum var munurinn á verði á grænmeti hvað mestur, oft 2-300%.

Í könnuninni er einungis um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Í könnuninni var hilluverð á 103 vöru skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina.

Könnunin var framkvæmd í eftirtöldum verslunum: Kjörbúðinni Garði, Krambúðinni Laugardal, Kr. Þorlákshöfn, Kjarval Hellu, Fjölval Patreksfirði, Hjá Jóhönnu Tálknafirði, Skerjakollu Kópaskeri, Urð Raufarhöfn, Versluninni Ásbyrgi, Dalakofanum Laugum, Hlíðakaup Sauðarkróki, Skagfirðingabúð Sauðárkróki (KS), Jónsabúð Grenivík, Kauptúni Vopnafirði og Hraðbúðinni Hellissandi.

Nánari upplýsingar má finna á vef ASÍ.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga