Fréttir | 15. september 2020 - kl. 09:54
Ljósleiðari frá Hveravöllum til Skagafjarðar

Míla ehf. er að hefjast handa við lagningu ljósleiðara á 84 kílómetra leið frá Hveravöllum til Skagafjarðar og er það síðasti áfangi framkvæmda við að ljósleiðaratengja Suðurland og Norðurland. Framkvæmdum á að ljúka í nóvember, að því er segir í frétt í Morgunblaðinu í dag. Þar kemur fram að ljósleiðarinn verður plægður beint í jörð á 50-60 sentímetra dýpi. Lögnin mun þvera fjölmargar ár og læki, þar á meðal jökulána Blöndu.

Í fyrra var lokið við lagningu ljósleiðara frá Bláfellshálsi að Hveravöllum en frá Hveravöllum verður nú haldið áfram að Þórisvatni um Eyvindarstaðaheiði og Mælifellsdal og endað við Steinsstaði í Skagafirði. Í Morgunblaðinu kemur fram að þar sem því verður komið við mun ljósleiðarinn þvera vatnsföll á brúm en á öðrum stöðum verður hann plægður eða grafinn í botn ánna þvert yfir þær.

Sjá nánari umfjöllun í Morgunblaðinu í dag.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga