Fréttir | 22. september 2020 - kl. 14:39
Meirihluti bænda hefur áhuga á ullarræktun

Í skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, sem unnin var fyrir Textílmiðstöð Íslands, þar sem kannað er viðhorf sauðfjárbænda til ullarræktunar og hvernig hægt sé að auka verðmæti hennar, kemur fram að rúmlega helmingur svarenda hefur mjög eða frekar mikinn áhuga á ullarræktu en 18% höfðu frekar lítinn eða mjög lítinn áhuga. Könnunin náði til 1.080 búa eða allra sauðfjárbænda 18 ára og eldri með bú skráð í Landssamtök sauðfjárbænda um allt land. Svarhlutfall var 53%.

Í skýrslunni kemur fram að langflestir svarenda skiluðu ull af búinu til Ístex og flokkuðu ullina samkvæmt flokkunarkerfi Ístex. Um 11% fannst mjög eða frekar vel borgað fyrir kíló af fyrsta flokks hvítri ull hjá Ístex. Um 69% svarenda fannst ásættanlegt verð fyrir kíló af fyrsta flokks hvítri ull liggja á bilinu 500 til 1100 kr.

Lítil heimavinnsla á ull stunduð á bæjum
Um 22% svarenda höfðu mjög eða frekar mikinn áhuga á heimavinnslu á ull, en 87% sögðu enga heimavinnslu á íslenskri ull vera stundaða á bænum. Þau sem stunduðu heimavinnslu á ull voru spurð hvort að ullin sem notuð væri í heimavinnslu kæmi af búinu eða væri keypt. Rúmlega helmingur sagði alla ull koma frá búinu. Um helmingur þeirra sem sögðu að heimavinnsla væri stunduð á bænum sögðust sinna henni sjálfir og svipað hlutfall nefndi eiginkonu/sambýliskonu. Þar sem heimavinnsla var stunduð var algengast að prjónaskapur eða hekl væri selt frá bænum (16 svarendur) eða þæfð ull (7 svarendur).

Talsverður áhugi á að þróa sameiginlega vefverslun
Um 42% svarenda höfðu mjög eða frekar mikinn áhuga á að láta spinna sérstakt band úr ullinni sem væri hægt að rekja til búsins. Þegar spurt var hversu mikinn eða lítinn áhuga svarendur hefðu á því að taka þátt í að þróa sameiginlega vefverslun fyrir íslenska ull og ullarvörur í samstarfi við Textílmiðstöðina kom í ljós að 34% höfðu mikinn eða frekar mikinn áhuga á slíku. Þá var spurt hvað væri sanngjörn álagning á vörur þeirra í vefverslun og 87% svarenda taldi sanngjarna álagninu vera á bilinu lægri en 30% til 60%, en um 13% töldu sanngjarna álagningu vera hærri en 60%.

Mikilvægt að ullarframleiðslan sé umhverfisvæn
Spurt var um viðhorf til náttúruvænnar ullarframleiðslu. Miklum meirihluta, eða 90%, fannst mjög eða frekar mikilvægt að ullarframleiðsla á Íslandi væri umhverfisvæn. Þegar spurt var hvað ætti að einkenna umhverfisvæna íslenska ullarframleiðslu merktu 79% við að bandið/ullin væri 100% íslensk og 74% að ullarvinnsla færi öll fram á Íslandi. Um 30% höfðu mjög eða frekar miklar áhyggjur af umhverfisáhrifum af textílframleiðslu í heiminum og svipað hlutfall eða 34% höfðu mjög eða frekar litlar áhyggjur.

Bændur vilja læra meira um meðferð ullar
Þegar sauðfjárbændur voru spurðir hvort þeir hefðu áhuga á að auka þekkingu sína á ákveðnum sviðum sem viðkoma ull og ullarræktun kom fram nokkur dreifing á svörum þeirra. Algengast var þó að fólk hefði áhuga á að læra meira um meðferð ullar við og eftir rúning (56%) og ræktun fjár með ullargæði í huga (53%). Í lokin voru bændur spurðir í opinni spurningu hvar þeir teldu helstu möguleika sauðfjárbænda liggja í að auka verðmæti ullarinnar og komu nokkur meginþemu fram. Fram kom að margir töldu helstu möguleika liggja í að vanda betur til verka við ullarvinnslu heima fyrir, þar á meðal við rúning og fjárræktun, aðrir töldu möguleikana liggja í aukinni markaðssetningu og vöruþróun á ull og ullarvörum og enn aðrir í breyttum viðskiptaháttum með ull.

Skýrsluna má lesa hér.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga