Fréttir | 24. september 2020 - kl. 16:21
Stjórnmálaályktun kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi

Á aðalfundur kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi sem haldinn var í Borgarnesi 13. september síðastliðinn var samþykkt stjórnmálaályktun. Í henni segir m.a. að algjört forgangsatrið sé að tryggja samfélagslegan arð af auðlindum þjóðarinnar þar sem fullt gjald komi fyrir afnotin og að stuðla þurfi að sjálfbæru landbúnaðarkerfi sem auki hagkvæmni í framleiðslu landbúnaðarafurða og tryggi þannig aukna verðmætasköpun. Þá leggur Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi þunga áheslu á tafarlausar umbætur í samgöngumálum.

Í samantekt stjórnmálaályktunarinnar segir:

Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi telur algjört forgangsatriði að tryggja samfélagslegan arð af auðlindum þjóðarinnar þar sem fullt gjald komi fyrir afnotin. Heppilegasta leiðin til að ákvarða gjald fyrir ótímabundin sérleyfi til nýtingar á takmarkaðri auðlind er að nýta markaðslögmálin og hverfa hið fyrsta frá núverandi kerfi í viðráðanlegum skrefum og útfæra nýtt kerfi með því að setja reglur sem taka tillit til byggðasjónarmiða, koma í veg fyrir samþjöppun og virða sérstöðu minni útgerða. Lögð er áhersla á áframhaldandi uppbyggingu laxeldis á Vestfjörðum og stjórnvöld eru hvött til þess að stuðla að skynsamlegri nýtingu á lífríkinu í fjörðunum þar sem það stuðlar að auknum atvinnumöguleikum á svæðinu.

Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi leggur þunga áherslu á tafarlausar umbætur í samgöngumálum. Kjördæmið hefur setið eftir árum saman að þessu leyti og umferðaþungir vegakaflar eru orðnir lífshættulegir eins og dæmin sanna. Hefja þarf framkvæmdir eins og við endurgerð vegakaflans um Kjalarnes að Borgarfjarðarbrú. Vatnsnesveg, Skagastrandarveg, Dynjandisheiði og í Arnarfirði. Þá er fyllilega tímabært að jarðgangaframkvæmdir undir Mikladal og Hálfdán og við Súðavík verði strax settar í nýja jarðgangaáætlun.

Stuðla þarf að sjálfbæru landbúnaðarkerfi sem eykur hagkvæmni í framleiðslu landbúnaðarafurða og tryggir þannig aukna verðmætasköpun. Til þess þarf að minnka miðstýringu tengda framleiðslukvótum og niðurgreiðslum framleiðenda. Þess í stað þarf að gera bændum kleift að sækja fram og gera hverjum og einum fært að einbeita sér að enn grænni búskap sem með hæfni þeirra og kostum jarðnæðis á hverjum stað skapar þeim best kjör.

Krafan um lýðræðisumbætur og auðlindir í þjóðareigu með nýrri stjórnarskrá er enn í fullu gildi. Virða skal lýðræðislegar niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá sem var gerð fyrir fólkið í landinu af hópi fólks sem var ekki bundinn af eigin hagsmunum.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga