Skjáskot af ruv.is
Skjáskot af ruv.is
Fréttir | 25. september 2020 - kl. 13:10
Vonast eftir sérþjálfuðum COVID-leitarhundum

Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra, Stefán Vagn Stefánsson, vonast til að fá sérþjálfaða COVID-leitarhunda til landsins, gefi þeir góða raun erlendis. Segir hann í samtali við Ríkisútvarpið að lögreglan sé í stöðugu sambandi við stofnanir í Bretlandi sem þjálfi hunda og rannsaki hvort þeir geti orðið að liði í greiningu kórónuveirusýna. Samkvæmt fréttum frá Finnlandi benda fyrstu niðurstöður til þess að hundar geti greint jákvæð sýni með um 90 prósenta nákvæmni en COVID-leitarhundar tóku til starfa á flugvellinum í Helsinki í Finnlandi í fyrradag.

Embætti lögreglustjórans á Norðurlandi vestra hefur yfirumsjón með þjálfun og úttekt á öllum lögregluhundum landsins. Stefán Vagn segir að vel hafi verið fylgst með tilraunaverkefnum erlendis frá byrjun faraldursins. Sérstaklega hjá Bretum sem byrjuðu mjög snemma að þjálfa COVID-leitarhunda. „Síðan hefur háskólinn í Helsinki farið af stað, ásamt ýmsum öðrum. En Bretarnir hafa reynsluna af þjálfun malaríu-hunda í Gambíu árið 2016. Það skilaði góðum árangri,” segir Stefán í samtali við Ríkisútvarpið.

Sjá nánar í frétt á vef Rúv.is.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga