Mynd: birkiskogur.is
Mynd: birkiskogur.is
Fréttir | 26. september 2020 - kl. 09:49
Söfnun á birkifræi

Skógræktin og Landgræðslan taka nú höndum saman og óska eftir stuðningi landsmanna við að breiða birkiskóga landsins út. Hafið er átak við að safna birkifræi sem verður dreift á völdum beitarfriðuðum svæðum í öllum landshlutum. Hugmyndin er að almenningur og hópar vítt og breitt um landið safni birkifræi í nágrenni sínu eða í völdum birkiskógum í sínum landshluta.

Hægt er að skila birkifræi í sérmerktar tunnur sem eru í verslunum Bónus, á starfsstöðvum Terra, Skógræktarinnar og Landgræðslunnar.

Þeir sem skila fræi á söfnunarstöðvar geta notað box átaksins eða sett fræið í pappírspoka eða poka úr taui – efnið þarf að geta “andað”. Fræið þarf að vera í kæli ef þarf að geyma það. Alltaf þarf að skrá hvar og hvenær fræið var tínt. Hægt er að skrifa þetta á box átaksins en komi fólk með eigin poka verða þessar upplýsingar að fylgja pokanum. Fræi sem er skilað á söfnunarstöðvar verður dreift í haust undir leiðsögn starfsmanna Skógræktarinnar og Landgræðslunnar.

Páll Ingþór Kristinsson, formaður Skógræktarfélags Austur-Húnvetninga segir í færslu á Facebook að Austur-Húnvetningar geti komið fræinu til hans eða Terra á Blönduósi. Í færslu sinni segir hann frá því að krakkarnir í Blönduskóla hafi plantað trjám í brekkurnar fyrir ofan Leikskólann Barnabæ síðan 1999 og sé þar kominn myndarlegur birkireitur. Verkefnið ber heitið Yrkja – sjóður landsins til ræktunar. Í haust hafi þau plantað töluvert af birki, lagfært brotin tré og safnað birkifræi. „Gott að eiga stund með börnunum næstu daga út í náttúrunni,“ segir Páll Ingþór.

Sjá nánar á vefnum Birkiskógur.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga