Fréttir | 29. september 2020 - kl. 10:08
Áhyggjur af lágu afurðaverði til bænda

Byggðarráð Húnaþings vestra og sveitastjórnir Dalabyggðar, Strandabyggðar og Reykhólahrepps lýsa yfir þungum áhyggjum af lágu afurðaverði til sauðfjárbænda og seinagangi við birtingu afurðastöðvaverðs nú í haust. Í bókun sem samþykkt var á fundir byggðarráðs Húnaþings vestra nýverið segir að sauðfjárrækt sé mikilvæg búgrein þessara sveitarfélaga og ein af forsendum búsetu í dreifbýli. Rúmlega 21% af framleiðslu kindakjöts árið 2019 fór fram í þessum sveitarfélögum.

Í bókuninni segir:

„Á undanförnum árum hafa orðið ábúendaskipti á þónokkrum bújörðum í sveitarfélögunum og yngra fólk með fjölskyldur tekið við. Þessar fjölskyldur efla samfélagið, styðja við þjónustu ásamt því að halda uppi atvinnustigi. Líkt og í öðrum rekstri er mikilvægt að sauðfjárbændur fái viðunandi verð fyrir sína vöru og hafi þannig forsendur til áætlanagerðar og ákvarðanatöku. Því er skorað á afurðastöðvar að gefa út afurðaverð 2021 fyrir komandi áramót.

Samkvæmt samantekt Landssamtaka sauðfjárbænda var afurðaverð til íslenskra sauðfjárbænda á síðasta ári það lægsta sem finnst í Evrópu og miðað við nýbirtar verðskrár 2020 er vegið meðalverð 502 kr./kg. Hefði afurðaverð fylgt almennri verðlagsþróun frá 2014 ætti það að vera 690 kr./kg. Því vantar enn tæpar 200 kr./kg. upp á afurðastöðvaverð fylgi verðlagsþróun.

Í heimsfaraldri vegna COVID-19 fengu Íslendingar áminningu um mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu. Skapa þarf greininni stöðugleika í rekstri til lengri tíma og styðja á öflugan hátt við innlenda matvælaframleiðslu.“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga