Húnavellir
Húnavellir
Fréttir | 26. október 2020 - kl. 16:46
Nýjar reglur um ungmennaráð í Húnavatnshreppi

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps hefur samþykkt nýjar reglur um ungmennaráð. Hlutverk þess er m.a. að efla tengsl ungmenna í sveitarfélaginu og auka tengsl þeirra við stjórnkerfi þess. Þá á ráðið að vera sveitarstjórn til ráðgjafar um málefni ungs fólks í Húnavatnshreppi og leggja fram tillögur um það hvernig æskilegt væri að haga starfsemi stofnana sveitarfélagsins. Sveitarstjóra hefur jafnframt verið falið að leita eftir tilnefningum í ungmennaráðið.

Samkvæmt reglum ungmennaráðsins skal sveitarstjórn skipa ráðið að fengnum tillögum frá eftirtöldum aðilum:

  • Nemendafélag Húnavallaskóla skipar tvo fulltrúa og tvo til vara.
  • Nemendafélag Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra tilnefnir einn fulltrúa og einn til vara.
  • USAH tilnefnir einn fulltrúa og einn til vara.
  • Sveitarstjórn Húnavatnshrepps tilnefnir einn fulltrúa og einn til vara.

Við tilnefningar í ráðið skulu stofnanir/félög leitast við að kynjaskipting sé jöfn. Tilnefning í ráðið skal gilda frá 1. október til eins árs í senn. Meðlimir ungmennaráðs skulu hafa lögheimili í Húnavatnshreppi og vera á aldrinum 14-20 ára. Ráðið kýs sér sjálft formann, varaformann og ritara.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga