Fréttir | 30. október 2020 - kl. 11:17
Vonar að áhugi á vefnaði verði endurvakinn með tilkomu rafræns gagnagrunns

Rafrænn gagnagrunnur með vefnaðarmunstrum og uppskriftum er nú opinn fyrir almenning, textíliðnaðinn, textílhönnuði og vefara á heimsíðu Textílmiðstöðvar Íslands á Blönduósi. Með tilkomu gagnagrunnsins opnast möguleikar til að búa til ný munstur, sem byggja á gömlum vefnaðarmunstrum, vefnaðarprufum og sýnishornum og nýta þau til dæmis í iðnaðarframleiðslu og nýsköpun í textílhönnun. Textílmiðstöðin vonar að með tilkomu gagnagrunnsins verði áhug á vefnaði endurvakinn hér á landi.

Í Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi hefur undanfarin þrjú staðið yfir rannsóknin Bridging textiles to the digital future - Að byggja stafræna textílbrú inn í framtíðina, en hún var styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannís lauk henni formlega 31. ágúst síðastliðinn. Verkefnið hefur falið í sér að rannsaka, greina og endurheimta mikilvæga þekkingu, tækni og aðferðir í vefnaði, setja upp rafrænan gagnagrunn, með vefnaðarmunstrum og uppskriftum, á heimasíðu Textílmiðstöðvar og vefa nýjar útgáfur af gömlu munstrunum í stafrænum TC2 vefstól. Markmið með verkefninu var einnig að færa stafræna vefnaðartækni til Íslands og kynna hana fyrir hönnuðum, textíllistamönnum og vefurum, en ennþá er aðeins einn TC2 stafrænn vefstóll til á Íslandi.

Sagt er frá þessu á vef Rannís. Þar kemur fram að við flutning á gömlum munstrum yfir í stafrænar skrár er mögulegt að hagnýta aftur hefðbundna íslenska verk- og tæknimenningu og flétta inn í hönnun og framleiðslu á textílvöru á nýjan hátt. Með því að nýta rannsóknina, gagnagrunninn og/eða aðstöðu í Kvennaskólanum á Blönduósi, skapast tækifæri til að gera nýjar frumútgáfur, frumgerðir og vefa sýnishorn í TC2 stafræna vefstólnum. Textílmiðstöð Íslands mun einnig beita sér fyrir og hvetja til þess að iðnaðarvefstóll/vefstólar og Jacquardvefstóll verði aftur tiltækir hér á landi þannig að mögulegt verði að framleiða hágæða ullarefni t.d. vaðmál, tweed efni og værðarvoðir úr íslenskri ull.

Gagnagrunnurinn er aðgengilegur á heimasíðu Textílmiðstöðvar: https://www.textilmidstod.is/ undir flipanum ,,Vefnaður”.

Sjá nánari umfjöllun á vef Rannís.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga