Nöldrið | 15. nóvember 2020 - kl. 21:32
Við upphaf vetrar

Þá hefur vetur konungur haldið innreið sína og verið rólegur þessar fyrstu vikur og verður vonandi spakur áfram. Okkur finnst við eiga skilið góðan vetur eftir allar þær hremmingar sem við höfum mátt þola á árinu, eins og veiruskömmina og stórviðri og vetrarhörkur í fyrra.

Svo eru bara jólin að koma. Skammdegið væri mörgum erfitt ef ekki væru blessuð jólin sem koma á besta tíma þegar myrkrið grúfir yfir landinu okkar hér á hjara veraldar. Því ber að fagna að nú er fólk almennt fyrr til að kveikja á ljósum í gluggum sínum og skreyta hús og garða. Ekki veitir af að gleðja sjálfan sig og náungann og veita birtu inn í sálina. Og það eru sem betur fer margir sem gleðja og gefa.

Veitingahúsið B&S hér á Blönduósi var svo rausnarlegt að bjóða öllum bæjarbúum 70 ára og eldri ásamt mökum í mat. Kótilettur í raspi ásamt meðlæti. Matnum var ekið heim að dyrum hjá þeim sem þáðu. Þetta er fallegt og frábært framtak hjá þeim veitingahjónum Söndru Kaubriene og Birni Þór Björnssyni og Gullborgararnir eins og Björn Þór kallaði hópinn fullir þakklætis eins og gefur að skilja.

Já það eru margir sem gefa og gleðja t.d. listamennirnir sem streyma söng og gleði á öllum veitum og miðlum og fer Helgi Björnsson þar fremstur í flokki og svo kom fréttin frá nágrönnum okkar Skagfirðingum að nú fyrir jólin gefi Kaupfélag Skagfirðinga hjálparsamtökum sem liðsinns fólki í neyð þá stærstu matargjöf sem gefin hefur verið á Íslandi. Geri aðrir betur. Það fyllir mann stolti að búa í nágrenni við slíka höfðingja.

Í haust mátti lesa hér á þessum miðli að lögreglan hygðist vera með sérstakt eftirlit með ljósabúnaði ökutækja. Ég ætla rétt að vona að þetta eftirlit nái til hlaupahjólanna sem börnin og unglingarnir geysast á um bæinn oft á allt of miklum hraða. Þetta eru vissulega n.k. ökutæki að minnsta kosti þau rafknúnu. Það er góðra gjalda vert að lögreglan fylgist vel með ljósbúnaði bifreiða. En ekki hef ég orðið var við nokkurt eftirlit með hraðakstrinum um götur bæjarins sem margoft hefur verið bent á. Þar breytist ekkert, og það vita þeir sem keyra á 60-70 km/klst þar sem hámarkshraði er 30 km.

Alltaf öðru hvoru á maður leið um Norðurlandsveginn við vegamótin þar sem beygt er inn á Skagastrandarveg. Þar liggur á hliðinni stærðar auglýsingaskilti sem býður fólk velkomið í nafni Hótel Blöndu og er búið að liggja þarna í u.þ.b. ár. Væri nú ekki tímabært að einhver sem ber ábyrgð á þessu afvelta skilti, annaðhvort fjarlægja það eða reisa það við og festi vel svo það takist ekki á loft í vetrarstormum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Svona til gamans og af því að jólin koma bráðum enda ég þetta með fyndnum pistli sem ég las á dögunum í Fréttablaðinu:

Í ár koma aðeins 10 jólasveinar til byggða vegna fjöldatakmarkana og koma á 2ja daga fresti til að tryggja fjarlægð. Sá fyrsti sem kemur er Tveggjametrastaur, annar er Fordæmalaus svo kemur Hamstur, þá Gluggagægir og svo Hurðaskellir. Þá kemur Heilaskefill sem dregur nafn af sýnatökupinnum. Þar á eftit er Sprittgámur,  þá Grímuþefur svo Sóttkvíabrjóturog Ónæmissníkir sá síðasti á aðfangadagskvöld.

Njótum lífsins heilbrigð, Nöldri.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga