Ljósm: Ljósmyndasafn Skagastrandar
Ljósm: Ljósmyndasafn Skagastrandar
Pistlar | 16. nóvember 2020 - kl. 13:25
Stökuspjall: Bláleit fjöll í geislalaugum

Hver, sem ekki á í sjóð
æskubjarta daga
getur aldrei ljúflingsljóð
leikið á hörpu Braga.

Yrkir svo Angantýr Jónsson á Skagaströnd fyrsta skáld sem birtist á síðum Húnvetningaljóða. Hann var fæddur í Bólstaðarhlíð vorið 1910 þar sem foreldrar hans, Guðrún Árnadóttir frá Lundi og Jón Þorfinnsson voru að hefja saman vegferð sína.

Ljóðunum var safnað af Húnvetningum á Akureyri og gefin út 1955.

Næstur í skáldaröð er Arinbjörn Árnason frá Neðri-Fitjum:

Ljómar snilli lífs á grund
ljósið gyllir voga.
Iðar hylling yst við sund
öll í stilli-loga.

Ása Jónsdóttir f. 1919 á Ásum, systurdóttir Páls í Sauðanesi og Stefáns á Smyrlabergi yrkir um hamingjuna:

Ég veit þú átt heima í heilbrigði manns
hrekklausum vilja og sterkum.
Samt er þín leitað í drykkju og dans,
draumum og myrkraverkum.

Ásgrímur í Ásbrekku kvað:

Þegar halla að hausti fer
heiðin kallar löngum.
Hugurinn allur unir sér
inn til fjalla í göngum.

Um vor á Laxárdal kveður Auðunn Bragi, fæddur í Selhaga 1923:

Ekki er lengi að leysa snjó
Laxárdals úr hlíðum
þegar Suðri sendir nóg
af sunnanvindum þíðum.

Flettum nú sem örast yfir fjölda af góðskáldum, aftur að bókstafurinn I þar sem fjögur húnvetnsk skáld bíða okkar svo við fáum að njóta andagiftar þeirra.

Indíana Albertsdóttir saknar Norðurárdalsins, þar sem nú býr Karólínu í Hvammshlíð, hrossin hans Skarphéðins söngstjóra ganga og strætóleiðin milli Refasveitar og Laxárdals ytra liggur um.

Indíana bjó í 15 ár í Kollugerði og Eyjarkoti en flutti síðan með manni sínum, Stefáni múrara á ættarslóðir hans í Skagafirði. En hún ólst upp í Neðstabæ:

Fjalladalur, fóstri minn,
faðmi barn sitt vefur.
Geislar heitir kyssa kinn
Kári þróttinn gefur.

Ingibjörg Sigfúsdóttir á Refsteinsstöðum f. 1909 er líka dalakona alin upp í Forsæludal:

Þá, sem skinið skærast fá
skaltu úr geislum þínum
Glóey, velja og gefa þá
gamla dalnum mínum.

Ingibjörg Sigurðardóttir er fædd í Króki á Skaga 17. ágúst 1925 eins og Jón Árnason bókavörður, sem fæddist á prestsetrinu Hofi 106 árum áður:

Síðastur skáldaröðinni er Ingvar bóndi á Balaskarði. Hann fór á Hvítárbakkaskóla 1911, nam þar í tvo vetur, bjó síðan á Eldjárnsstöðum 1920-26, Smyrlabergi 1926-27 og á Balaskarði frá 1927:

Bernskuvonir

1. Áður var eg – eins og gengur –
ofurlítill smaladrengur.
Starfi þessi fannst mér fengur;
fjallaloftið – víðsýnið.
Margbreytt sá eg sjónarmið.
Blöstu þá við bernskuaugum
bláleit fjöll í geislalaugum,
en í fjarska úthafið.

3. Ríkur bóndi eg verða vildi.
Væna jörð eg bæta skyldi.
Með tímans kröfum heyja hildi
og heldri bænda fylla bekk.
Í ævintýrum oft svo gekk. –
Bæinn skyldi eg byggja nýjan,
burstaháan, sólskinshlýjan,
eftir fyrri alda smekk.

5. Eins eg þráði að yrkja og skrifa,
– yndislegt þá væri að lifa. –
Á hátind frægðar helst að klifa,
– eg hafði lesið oft um slíkt.
Helst var mér í huga ríkt
að syngja ljóð með svanahljómi
svo að þjóðarlofgerð ómi.
Og það var fleira þessu líkt.

Meiri ljóð og vísur:
Fleiri ljóð Ingvars:  http://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/ljod.php?ID=4614
Hér er vísa eftir Rakel, ömmu Skarphéðins söngstjóra og Einar Andrésson afa hennar: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=13475

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga