Fréttir | 18. nóvember 2020 - kl. 09:45
Atvinnuleysi lægst á Norðurlandi vestra

Almennt atvinnuleysi á landinu er sem fyrr lægst á Norðurlandi vestra en það var 3,4% í október. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var almennt atvinnuleysi í október á landinu öllu 9,9%, sem er nokkur aukning frá fyrri mánuðum. Samanlagt atvinnuleysi í almenna kerfinu og í minnkandi starfshlutfalli jókst allstaðar á landinu í október en minnsta aukningin var á Norðurlandi vestra, Vestfjörðum og Vesturlandi eða á bilinu 0,5-0,8%.

Á Austurlandi jókst atvinnuleysið um 1,8 prósentustig og á Suðurlandi og Suðurnesjum jókst það um 1,6 prósentustig. Á Suðurnesjum fór heildaratvinnuleysið úr 19,6% í september í 21,2% í október. Á Suðurlandi jókst það úr 8,4% í september og í 10,0% í október og á Austurlandi fór það úr 5,2% í september og í 7,0% í október. Á höfuðborgasvæðinu var aukningin 1,2 prósentustig fór úr 10,1% í september og í 11,3% í október.

Á Norðurlandi vestra er atvinnuleysi í almenna kerfinu 3,4% eins og áður sagði og í minnkandi starfshlutfalli 0,9% eða samanlagt 4,3%. Atvinnuleysi í október var næst minnst á Vestfjörðum en þar var í almenna kerfinu 4% og 0,5% í minnkandi starfshlutfalli eða samanlagt 4,5%. Þar á eftir kemur svo Vesturland með 6,1% atvinnuleysi í almenna kerfinu og 0,9% í minnkandi starfshlutfalli, eða samanlagt 7%.

Atvinnuleysi er hærra meðal kvenna en karla alls staðar á landinu nema á höfuðborgarsvæðinu og Vestfjörðum.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga