Tilkynningar | 25. nóvember 2020 - kl. 12:59
Ljósin tendruð á jólatrénu
Frá Blönduósbæ

Kæru Blönduósingar

Nú er snjórinn kominn og jólin nálgast.

Undir eðlilegum kringumstæðum værum við að setja saman viðburð til að koma saman og kveikja á ljósunum á jólatrénu okkar. En aðstæður í ár eru öðruvísi en við erum vön. Fjöldatakmarkanir setja strik í reikninginn hjá okkur.

Til að geta samt haldið í hefðina okkar höfum við ákveðið að börn í 1. og 2. bekk Blönduskóla ásamt kennurum og fulltrúa Blönduósbæjar mæti við kirkjuna klukkan 10 fimmtudaginn 26. nóvember og kveikja á trénu og syngja jólalög.

Eitthvað höfum við heyrt frá fjöllunum að þar séu sveinarnir búnir að vera að æfa sig að fylgja sóttvörnum og ætli að mæta sprækir og glaðir á svæðið.

En við viljum að sem flestir geti notið þess að sjá kveikt á trénu, því verður viðburðinum streymt á facebook síðu Blönduóss.

Við viljum hvetja ykkur öll til að njóta aðventunnar með fjölskyldunni, fara í göngutúra um bæinn okkar og skoða jólaskreytingarnar, dansa og syngja við jólatréð, leik á skólalóðunum og kíkja við í Fagrahvammi með heitt kakó og smákökur.

Njótið vel um aðventuna, jól og áramót

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga