Að Fjallabaki. Ljósm: stjornarradid.is
Að Fjallabaki. Ljósm: stjornarradid.is
Fréttir | 02. desember 2020 - kl. 09:33
Fyrirvarar settir við frumvarp um Hálendisþjóðgarð

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um Hálendisþjóðgarð en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Gert er ráð fyrir að þjóðgarðurinn nái yfir um 30% af Íslandi, en um helmingur svæðisins nýtur nú þegar verndar. Má þar nefna Vatnajökulsþjóðgarð, Hofsjökul og Þjórsárver, Kerlingarfjöll, Landmannalaugar og Hveravelli.

Undirbúningur vegna málsins hefur staðið yfir undanfarin ár og var m.a. nefnd þingmanna úr öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi ásamt fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, falið að skilgreina mörk þjóðgarðsins og setja fram áherslur um skiptingu landsvæða innan hans í verndarflokka. Nefndin skilaði skýrslu sinni um málið í lok síðasta árs og var frumvarp um Hálendisþjóðgarð kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í desember 2019. Frá þeim tíma hefur ráðherra átt víðtækt samráð og samtal um frumvarpið m.a. með fulltrúum þeirra sveitarstjórna sem eiga land að miðhálendinu.

Skiptar skoðanir um frumvarpið
Óvíst er að frumvarpið fari svo létt í gegnum Alþingi því Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa gert miklar athugasemdir við það og stjórnarandstaðan virðist ekki heldur alltof hrifin. Í gær sendi Sigurður Ingi Jóhansson, formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, frá sér yfirlýsingu um málið en í henni eru settir sjö veigamiklir fyrirvarar við frumvarpið. Einn þeirra snýr að valdsviði umdæmisráða en þingflokkur Framsóknarflokksins leggur áherslu á að sveitarfélög fari með skipulagsvald á hálendinu og að valdsvið umdæmisráða verði skýrt nánar, sérstaklega þegar skarast ákvarðanir einstakra sveitarstjórna og stjórnar Þjóðgarðsins og ráðherra. Þá þurfi jafnframt að tryggja umsjónar- og yfirráðarétti einstakra sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka á verkefnum sem þau hafi haft með höndum.

Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Haraldi Benediktssyni, oddvita sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi, að þingflokkur hans hafi marga fyrirvara um frumvarpið. Hann telur jafnframt að stjórnarflokkarnir séu ásáttir um hvað þarfnist helst umræðu á þinginu. „Málið hefur tekið heilmiklum breytingum, en ætli flestir þingmenn míns flokks standi ekki að baki fyrirvörum Vilhjálms Árnasonar; stærð garðsins, skipulagsvaldi sveitarfélaganna, orkuvinnslu og nýtingaráætlunum,“ segir Haraldur og bætir við að þingflokkurinn sé ekki á móti þjóðgarðsstofnun þó svo að menn átti sig ekki alveg á tilganginum. Helstu markmiðunum megi ná með einfaldari leiðum.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga