Svæði mögulegs sýnileika. Mynd: hunathing.is
Svæði mögulegs sýnileika. Mynd: hunathing.is
Fréttir | 08. janúar 2021 - kl. 12:36
Vill íbúafund vegna vindmyllugarðs

Skipulags- og umhverfisráð Húnaþings vestra vill að haldinn verði íbúafundur í sveitarfélaginu vegna áforma um vindmyllugarð á Laxárdalsheiði. Ráðið telur sig ekki hafa forsendur til að afgreiða umsögn um skipulagsbreytingar á Aðalskipulagi Dalabyggðar, sem óskað hefur verið eftir, innan tímamarka umsagnarfrests. Tíminn sem ráðið hafi fengið til að kynna sér málið sé einfaldlega of stuttur. Þá hefur ráðið ekki fengið gögn sem óskað var eftir frá Dalabyggð.

Málið var til umræðu á fundi skipulags- og umhverfisráðs í gær. Þar kom fram að óskað hafi verið eftir gögnum frá Dalabyggð sem nauðsynleg séu til að varpa betra ljósi á fyrirhugaðan vindmyllugarð. Þau gögn hafi ekki borist og því séu forsendur brotnar fyrir því að geta afgreitt umsögn innan tilgreindra tímamarka.

Í fundargerð kemur fram að ráðið óskar eftir því að haldinn verði íbúafundur eða kynning þar sem farið verði yfir áform um vindmyllugarð á Laxárdalsheiði, við sveitarfélagamörk Húnaþings vestra og Dalabyggðar, með sérstakri áherslu á áhrif í Húnaþingi vestra, s.s. ásýnd, náttúrufar og framtíðarhagsmuni sveitarfélagsins.

Tengd frétt:
Vindorkuver við sveitarfélagsmörk að Húnaþingi vestra

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga