Frá Blönduósi
Frá Blönduósi
Fréttir | 13. janúar 2021 - kl. 11:10
Útsvar í staðgreiðslu hækkar milli ára

Útsvar sem innheimt var í staðgreiðslu hjá sveitarfélögum á tímabilinu frá febrúar til desember 2020 var 4% hærra en á sömu mánuðum í fyrra. Þetta kemur fram í nýrri samantekt Sambands íslenskra sveitarfélaga. Staðgreiðslan var sérstaklega meiri á seinustu mánuðum ársins. Talsverður munur er á þróun staðgreiðslu útsvars milli sveitarfélaga í Húnavatnssýslum. Hækkunin er mest á Skagaströnd, 6,53% en í Skagabyggð lækkar útsvarið um 6% milli ára. Heildarhækkun á Norðurlandi vestra er 4,5%.

Á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að á tímabilinu febrúar til júní hafi staðgreiðsla sveitarfélaga á landinu 2020 verið 0,4% meiri en 2019. Hins vegar hafi hún verið 7,2% meiri á tímabilinu júlí til desember 2020 en á sömu mánuðum 2019. Umskiptin megi rekja til aðgerða ríkisstjórnar í vinnumarkaðsmálum. Skipti þar sköpum hin svokallaða hlutabótaleið og lenging tímabils tekjutengdra atvinnuleysisbóta. En fleira komi einni til. Í því skyni að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldursins hafi verið gerð breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Breytingin færði launagreiðendum sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna faraldursins heimild til að fresta allt að þremur gjalddögum skatta, þ.m.t. útsvari, á tímabilinu apríl til desember 2020. Í lok árs var sveitarfélögum greitt útsvar, sem frestað hafði verið, alls 3,1 milljarður krónur. Tekið er fram á vefnum að sveitarfélögum hafði ekki verið gerð grein fyrir áhrifum frestunar greiðslna og komu greiðslur í lok árs þeim nokkuð á óvart.

Allmikill munur er á þróun staðgreiðslu útsvars milli landshluta. Mest er hækkunin á Suðurlandi, 4,6% og minnst á Suðurnesjum, 1,5%. Á Vesturlandi er hækkunin 3,5%, á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra 4,5%, á Norðurlandi eystra 3,8% og á Austurlandi 2,9%. Höfuðborgarsvæðið var í takt við landið allt og hækkaði útsvar þar um 4%.

Af sveitarfélögum í Húnavatnssýslum hækkaði staðgreiðsla útsvars mest á Skagaströnd eða um 6,53%. í Húnavatnshreppi var hækkunin 2,7% og í Húnaþingi vestra 2,19%. Á Blönduósi nam hækkunin 1,35% og í Skagabyggð var lækkun um 6% eins og áður sagði.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga