Fréttir | 18. janúar 2021 - kl. 07:38
Hollvinasamtök HSB fá höfðinglega gjöf frá ELKO

Sigurlaug Þ. Hermannsdóttir, formaður Hollvinasamtaka HSB fékk heldur betur ánægjulegt símtal rétt fyrir jólin. Á línunni var Bára Sif Magnúsdóttir, barnabarn Báru Þorvaldsdóttur og Gunnars heitins Sveinssonar frá Skagaströnd. Bára Sif vinnur hjá ELKO og var það fyrir hennar tilstilli að Hollvinasamtökin fengu úthlutað 100.000 króna úttekt hjá fyrirtækinu. Þessi styrkur var notaður til kaupa á 55 tommu sjónvarpstæki sem verður á sjúkradeild B.

„Bára Sif minntist á að fjölskyldan hefði nýtt sér aðstandendaíbúðina þegar afi hennar lá fyrir dauðanum og þess vegna stungið upp á okkar samtökum til að styrkja. Þökkum við henni og fyrirtækinu ELKO hjartanlega fyrir. Þessi gjöf á svo sannarlega eftir að gleðja skjólstæðinga HSB,“ segir Sigurlaug.   

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga