Skjáskot af Youtube
Skjáskot af Youtube
Fréttir | 19. febrúar 2021 - kl. 10:17
Leikhúsgagnrýnandi Observer valdi leikverk Handbendi eitt besta menningarefnið fyrir börn

Breska stórblaðið Observer fékk helstu menningarvita sína til að velja besta menningarefnið fyrir börn til að njóta á tímum útgöngubanns og samkomutakmarkana. Leikhúsgagnrýnandi blaðsins, Susannah Clapp, valdi meðal annars Stúlkuna og hrafninn eftir Handbendi brúðuleikhús á Hvammstanga. Sýningarétturinn á verkinu var í síðasta mánuði seldur til eins virtasta brúðuleikhúss Lundúna sem heitir Little Angel Theatre og er hægt að horfa á verkið á YouTube.

Leikverkið er eftir Gretu Clougt og byggt á íslenskri þjóðsögu sem gerist í Vatnsdal. Tónlist eftir Paul Mosley og Sigurvaldi Ívar Helgason sá um hljóð. Leikendur eru Elín Rannveig Líndal og Sigurður Líndal.

Handbendi brúðuleikhús er með höfuðstöðvar sínar á Hvammstanga þar sem leikhúsið setur upp frumsamdar sýningar sem ferðast um allan heim. Leikhúsið er leitt af Gretu Clough, fyrrum listamanni hússins hjá hinu heimsfræga Little Angel Theatre í London. Greta hefur unnið til verðlauna fyrir gæði og frumleika í brúðulistum, og sem leikskáld.

Sjá grein Observer á vef The Guardian hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga