Bremsumælingabíll Isavia
Bremsumælingabíll Isavia
Fréttir | 24. febrúar 2021 - kl. 17:19
Ný aðflugshallaljós og bíll til að mæla bremsuskilyrði á Blönduósflugvelli

Eftir alvarlegt rútuslys við bæinn Öxl 10. janúar 2020 kom upp mikil umræða um flugvöllinn á Blönduósi. Völlurinn hafði ekki fengið viðhald á aðflugshallaljósum og ekki hægt að taka á móti sjúkraflugi í myrkri eða lélegu skyggni. Þennan dag í janúar 2020 var kallað eftir sjúkraflugi en ekki hægt að lenda vegna þess að aðflugshallaljós höfðu ekki verið prófuð. Eftir að þetta var ljóst var þyrla Landhelgisgæslurnar send á staðinn til að sækja þá sem fóru verst út úr slysinu. 

Eftir kröftugar umræður í fréttum og á samfélagsmiðlum setti ríkisstjórn Íslands fjármagn í flugvöllinn á Blönduósi. Isavia var falið að gera endurbætur á vellinum og koma aðflugshallaljósum í lag. Einnig var ákveðið að gera nýtt aðflug að Blönduósflugvelli eða svo kallað GPS aðflug. Ekki eru sendar eða annar búnaður á jörðu niðri í svona aðflugi heldur er um að ræða nákvæmisvinnu í kortagerð sem gerir flugvélum kleift að fljúga inn eftir GPS tækni af mikilli nákvæmni og öryggi. Gamla Radío eða NDB aðflugið út á Húnaflóa heyrir þá sögunni til og sennilega verður vitinn við Bakkakot lagður af en ekki hefur verið tekin ákvörðun um slíkt. Í þessu aðflugi út á flóanum er oft éljagangur að vetralagi og ísing algeng yfir sjónum. 

Nýja GPS aðflugið verður mikið öruggara og dýrmætur tími sparast í sjúkraflugi þegar hægt verður að fljúga beint inn á flugbrautina. GPS aðflugið er ekki tilbúið eins og er en vonandi klárast sú vinna í vor eða sumar.

Í vetur hefur nokkrum sinnum verið kallað eftir sjúkraflugi á Blönduósflugvöll en því miður hefur völlurinn stundum verið háll og þá þarf að gefa upp bremsumælingar. Bremsumælingarbíll hefur ekki verið á Blönduósflugvelli í mörg ár svo nú þurfti að finna leið til að lagfæra þetta. Isavia átti gamlan bíl sem ekki var notaður og kom hann á Blönduós í síðustu viku, hann er með gamlan bremsumælibúnað sem er samt í fullu gildi.

Flugáhugamenn á Blönduósi hafa tekið vaktina og hafa lært á bílinn og geta bremsumælt og tekið á móti sjúkraflugi ef þörf er á.

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga